Lagt hald á 1400 ólöglega mynddiska

Verið var að selja ólöglegar DVD-myndir í Hnífsdal um helgina. …
Verið var að selja ólöglegar DVD-myndir í Hnífsdal um helgina. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Golli

Lögreglan á Vestfjörðum lagði hald á 1.400 ólöglega DVD-diska á laugardag sem verið var að selja í Hnífsdal. Að sögn lögreglu er málið á frumstigi. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins og þá eru skýrslutökur ekki hafnar.

Lögreglan segir að diskarnir hafi verið í sölu á farandmarkaði í Hnífsdal. Árvökull vegfarandi hafi haft samband við lögreglu og sagt að þar væri verið að selja ólöglegar DVD-útgáfur af kvikmyndum.

Lögreglan fór á vettvang og ræddi við karlmann sem var að selja diskana. Maðurinn, sem er íslenskur, segist hafa fengið diskana erlendis frá. Lögreglan segir að kápurnar utan um diskana séu prentaðar í einhverjum heimaprentara og séu gæðin eftir því. Einnig sé prentunin á diskunum sjálfum illa unnin. 

Mikil vinna er framundan því lögreglan þarf að fara yfir myndefnið og skrá það. Búið sé að fara yfir nokkra diska og ljós hafi komið að útgáfurétturinn nái til markaða í Asíu og það megi leigja myndirnar út á ákveðnum markaði í Bandaríkjunum og í Kanada. Engin heimild sé hins vegar til að selja eða leigja umræddar myndir hér á landi eða í Evrópu.

mbl.is