Eftir Ómar Friðriksson
Mikill áhugi er nú á orkufyrirtækinu Þeistareykjum ehf. Samkvæmt traustum upplýsingum hafa fulltrúar kínverskra stjórnvalda lýst í erindi til stjórnar fyrirtækisins áhuga á mögulegum kaupum á 32% hlut í Þeistareykjum ehf. Talið er fullvíst að erindið sé lagt fram fyrir hönd fyrirtækisins Chinalco, stærsta álframleiðanda Kína. Hafa þeir óskað eftir frekari upplýsingum og fékkst staðfest í kínverska sendiráðinu í gær að kínversk sendinefnd hefði boðað komu sína til Húsavíkur um eða upp úr næstu helgi vegna málsins.
Fleiri sýna mögulegri orkuvinnslu á Þeistareykjum áhuga. Fram hefur komið að bæði Alcoa Fjarðaál og HS orka hafi haft til skoðunar möguleg kaup á hlutum í Þeistareykjum.
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti í gær formlega að endurnýja viljayfirlýsinguna gagnvart Alcoa með átta atkvæðum gegn einu.
Norðurorka, Landsvirkjun og Orkuveita Húsavíkur (OH) eiga um 32% hlut hver í Þeistareykjum en Norðurorka hefur lýst vilja sínum til að selja hlut sinn. Skv. heimildum hefur OH fullan hug á að nýta forkaupsrétt sinn.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar sögðu í gær samstöðu um að fyrsti kostur við orkuframkvæmdir væri bygging Búðarhálsvirkjunar. En einnig væri litið til Þeistareykja og Bjarnarflags. „Ég tel mjög mikilvægt að koma af stað framkvæmdum á borð við Búðarhálsvirkjun og að við getum komið málum þannig fyrir að menn geti líka haldið áfram fyrir norðan,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.