Umsókn um einkaskóla samþykkt

Hús Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg.
Hús Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær umsókn Menntaskólans ehf. um stofnun sjálfstætt rekins grunnskóla fyrir 5-10 ára börn. Umsóknin var samþykkt með níu greiddum atkvæðum, sex borgarfulltrúar minnihlutans greiddu hins vegar atkvæði gegn henni. Menntaskólinn verður í húsinu þar sem Heilsuverndarstöð Reykjavíkur var til margra ára, við Barónsstíg.

Kjartan Magnússon, formaður menntaráðs, mælti fyrir tillögunni og sagðist m.a. binda vonir við að nýi skólinn yki fjölbreytni í skólastarfi í Reykjavík, enda tryggðu fleiri sjálfstætt starfandi grunnskólar í Reykjavík borgarbúum aukið val um nám barna sinna.

Þeir fyrirvarar eru gerðir við samþykkt borgarstjórnar að starfsemin verði í samræmi við grunnskólalög og aðalnámskrá grunnskóla. Einnig að starfsemi skólans skuli fullnægja kröfum heilbrigðiseftirlits, eldvarnaeftirlits og vinnuverndar.

Meðal þess sem kom fram í máli fulltrúa Samfylkingarinnar var að óverjandi væri að setja fé í nýjan skóla þegar nemendum í borginni fækkaði auk þess sem þrengt væri að grunnskólum. Fjárhagslegt umhverfi grunnskólanna á næsta ári væri jafnframt verulega ótryggt.

Fleiri skólar veikja skólastarfið

Borgarfulltrúar Vinstri grænna töldu málið unnið af of miklum hraða og meðferðin væri ekki ásættanleg. „Skólanámskrá er ekki fullunnin, t.d. liggja áfangamarkmið ekki fyrir auk þess sem ekki er gerð grein fyrir hvernig skólinn hyggst mæta þörfum nemenda með sérþarfir,“ segir í bókun fulltrúa VG og einnig að það fé sem fari úr borgarsjóði til skólans skerði fjárframlög til grunnskóla borgarinnar. Borgarfulltrúarnir telja að með fjölgun grunnskóla nýtist skattféð verr og veiki starfið í þeim skólum sem fyrir eru.

Menntamálaráðuneytið veitir sjálfstætt starfandi skólum lögbundna viðurkenningu til að hefja starfsemi að fengnu samþykki menntaráðs. Það er því ráðuneytið sem gefur út hið endanlega starfsleyfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina