Hugmyndirnar fela ekki í sér „afslátt"

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra voru rétt í þessu að kynna hugmyndir Breta og Hollendinga vegna fyrirvaranna við Icesave-ábyrgðina, sameiginlega fyrir fulltrúum stjórnarandstöðunnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Birgittu Jónsdóttur.  

Jóhanna og Steingrímur sögðu að tillögurnar væru afrakstur viðræðna embættismanna. Þau sögðust í fyrstu ánægð með að hafa fengið viðbrögð og voru ekki tilbúin til að greina frá því hverju hugmyndirnar felast. Þau eru bjartsýn og mjög ánægð með að málið hafi tekið þessa stefnu.

Aðspurð sögðu Jóhanna og Steingrímur að hugmyndirnar feli ekki í sér „afslátt” af fyrirvörum Íslands.

Hvorki Þorgerður Katrín né Birgitta vildu tjá sig um tillögurnar þar sem þær væru bundnar trúnaði.  Birgitta sagðist vera ánægð og geta sætt sig við framkomnar hugmyndir. En Þorgerður var á öndverðum meiði og vísaði til samþykktar þingsins, þ.e. fyrirvaranna. Hún sagði einnig að stjórnarflokkarnir ættu eftir að kynna þetta innan sinna raða.

Sjálfstæðismenn halda þingflokksfund í kvöld klukkan hálfátta og Borgarflokkur mun einnig funda í kvöld.

Hollendingar og Bretar hafa óskað eftir því að þessar upplýsingar verði meðhöndlaðar sem trúnaðarmál á þessu stigi.

mbl.is