Skatttekjur dragist saman um 2,5 milljarð

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus

Á fundi borgarráðs í dag voru lagðar fram forsendur fyrir fjárhagsáætlunargerð Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Jafnframt  var úthlutað fjárhagsramma fyrir einstök fagsvið borgarinnar.

Í forsendum fjárhagsáætlunar gerir Reykjavíkurborg ráð fyrir svipaðri þróun atvinnu- og efnahagsmála og Seðlabanki Íslands og almennri lækkun tekna og hækkun velferðarútgjalda.  Gert er ráð fyrir að skatttekjur lækki um u.þ.b. 6% eða tæplega 2,5 milljarða króna, fjármagnstekjur lækki um 1,3 milljarða og velferðarútgjöld aukist um tæplega 2 milljarða króna.

Til að mæta þessum breytingum mun Reykjavíkurborg þurfa að draga saman í rekstarútgjöldum um rúmlega 6% á komandi fjárhagsári.

Við ákvörðun fjárhagsramma til einstakra málaflokka var forgangsraðað í þágu grunnþjónustu, barna og velferðarmála í samræmi við aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var samhljóða í borgarstjórn sl haust. 

Þannig er minni krafa um hagræðingu á Menntasviði, Leikskólasviði og Íþrótta- og tómstundasviði, en á Framkvæmda- og eignasviði, Skipulags- og byggingasviði og Umhverfis- og samgöngusviði. Er þetta í samræmi við ofangreinda forgangsröðun, að því er segir í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir að fagráð og fagsvið Reykjavíkurborgar skili tillögum að starfs- og fjárhagsáætlun 14. október og að borgarstjórn ljúki umræðu um frumvarpið í byrjun desember.


mbl.is

Bloggað um fréttina