Hefðu átt að minnka umsvifin

Geir H. Haarde ávarpar íslensku þjóðina eftir hrunið.
Geir H. Haarde ávarpar íslensku þjóðina eftir hrunið. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, viðurkenndi í vinsælum sænskum viðtalsþætti, að íslenska ríkisstjórnin hefði átt að takmarka umsvif bankanna og efla Fjármálaeftirlitið. Geir var gestur sjónvarpsmannsins Fredrik Skavlan sem gekk að honum og spurði hvort hann tæki ábyrgð á hruninu.

Viðtalið við Geir má sjá hér en áður en hann steig á svið lék Alexander Rybak, sigurvegari síðustu Evróvisjónkeppni, á fiðlu.

Geir varð ekki að ósk Skavlans, að því er fram kemur á fréttaskýringarvefnum AMX, þar sem fjallað er um viðtalið.

Segir þar að það horfi að jafnaði 2 til 3 milljónir Skandínava á þáttinn með Skavlan.

„Geir vildi ekki gangast við ábyrgðinni en viðurkenndi að ríkisstjórn Íslands hefði átt að takmarka umsvif bankanna og efla Fjármálaeftirlitið. Hann sagðist hafa hreina samvisku þegar Skavlan gekk harðast fram. Hann viðurkenndi þó að ríkisstjórnin undir hans forsæti hafi ekki gert allt rétt. Hann lagði áherslu á að fjármálakreppan væri heimskreppa en íslensku bankarnir hefðu verið búnir að taka mikla áhættu þegar kreppan skall á.

Geir sagði einnig að eitthvað hefði þurft að gera varðandi reglurnar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það hefði verið hægt og að hann sæi eftir að hafa ekki gert það. Hann lagði áherslu á að rekstur bankanna hefði verið í samræmi við evrópskar reglur.

Þáttur Skavlan hefur í meira en áratug notið mikilla vinsælda; fyrst í Noregi og nú einnig í Svíþjóð. Þátturinn er nú sendur út frá Stokkhólmi. Í þessum fyrsta þætti haustsins þótti Skavlan hins vegar takast miður upp og blöð í Noregi gefa honum lága einkunn í dag þótt viðtalið við Geir hafi þótt fjörugt,“ segir orðrétt í frétt AMX.

Kasparov sá Carlsen fyrst í Reykjavík

Áhugamönnum um skák er bent á að Skavlan ræðir síðar í þættinum við Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistara í skák, þar sem hann spyr hann út í undrabarnið Magnus Carlsen. Svarar Kasparov þá því til að hann hafi séð Carlsen í Reykjavík fyrir fimm árum og hrifist af honum. Viðtalsbrotið má sjá hér en það er eftir 43 mínútur.

„Fyrr en síðar hættum við allir,“ sagði Kasparov aðspurður um þá ákvörðun sína að hætta keppni í skák.

Hér má nálgast vefsíðu Skavlan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert