Launafólk taki yfir sjóðina

Frá ársfundi ASÍ í fyrra. Það kemur í hlut þingfulltrúa …
Frá ársfundi ASÍ í fyrra. Það kemur í hlut þingfulltrúa á ársfundi ASÍ sem fram fer dagana 22. og 23. október næstkomandi, að taka afstöðu til setu fulltrúa atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða innan ASÍ.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum rétt í þessu að leggja til við ársfund ASÍ í lok október, að launafólk taki yfir stjórnun lífeyrissjóða innan ASÍ og að stjórnarmenn verði kosnir beinni kosningu.

Tillagan hefur þegar verið send forseta ASÍ en samkvæmt 24. grein laga ASÍ er kveðið á um að mál þau og tillögur sem einstök aðildarsamtök óska að tekin verði fyrir á ársfundi, skuli send miðstjórn einum mánuði fyrir ársfund. Miðstjórn leggur þau mál og tillögur fyrir fundinn, ásamt umsögn sinni.

Tillaga Verkalýðsfélags Akraness gengur út á það að miðstjórn Alþýðusambands Íslands verði falið að vinna að því að atvinnurekendur hverfi úr stjórnum lífeyrissjóða og að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélaga kjósi sér stjórnarmenn með beinni kosningu.

„Það er mjög mikilvægt að í þessari tillögu er verið að stórauka lýðræðið þannig að allir sjóðsfélagar, bæði greiðendur og lífeyrisþegar, hafi möguleika á því að bjóða sig fram til stjórnarsetu í lífeyrissjóðum innan ASÍ,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.

Nánar á vef VLFA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert