Hætti við að gera mynd á Íslandi

Tékkneski kvikmyndaleikstjórinn Milos Forman segist hafa  haft uppi áform um að gera kvikmynd á Íslandi fyrir sex árum en á síðustu stundu var hætt við það.

Forman sagði, að þetta hafi átt að vera mynd um skákeinvígi Spasskys og Bobby Fischers.

„En ég vildi aðeins gera það ef þeir léku sjálfa sig. Spassky féllst þegar á það. Fischer samþykkti það einnig, til að byrja með, en þegar við hittumst komst ég að því að Fischer var afar flókinn persónuleiki og að það myndi ekki takast að fá hann til að vinna innan fyrirfram gefins tímaramma."

Forman sagðist hafa hitt Bobby Fischer fyrir sex eða sjö árum, til að ræða þessa hugmynd. „Við vorum búin að fjármagna myndina en því miður var ekki hægt að fá Bobby til að verða leikari," sagði hann.

Í Morgunblaðinu á morgun verður birt ítarlegt viðtal við Forman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert