Um 80% vilja afnema verðtryggingu

Um 75% svarenda eru hlynnt almennri niðurfærslu á verð- eða gengistryggðum lánum og rúmlega 80% vilja afnema verðtryggingu, samkvæmt símakönnun sem Capacent Callup gerði fyrir Hagsmunasamtök heimilanna.

Arney Einarsdóttir, talskona Hagsmunasamtaka heimilanna, segir að niðurstöðurnar séu skýrar. Látið hafi verið í veðri vaka að lítill minnihluti styðji umræddar niðurfærslur en könnunin sýni annað og mikilvægt sé að heimilin verði ekki afgangsstærð í því sem eigi að gera. „Við viljum að sjálfsögðu komast að samningaborðinu með stjórnvöldum, fjármálafyrirtækjum og samtökum vinnumarkaðarins og ræða um það hvaða lausnir verða í boði,“ segir hún og bætir við að verkalýðshreyfingin sé ekki málsvari fólks sem á heimili með lán. Arney bendir á að rætt hafi verið um að fólk með yfirveðsettar eignir fái afskriftir, en með slíkum aðgerðum sé verið að ívilna þeim sem fóru hvað óvarlegast. Það sé því ekki sanngjarnt að það sé breytan sem stýri því hverjir fái leiðréttingu sinna lána.

Samkvæmt könnuninni er rúmur meirihluti tilbúinn að fara í hópmálsókn gegn fjármálafyrirtækjum og 18% svarenda segjast ekki ná endum saman. Arney segir það áhyggjuefni, enda samsvari talan um 45.000 einstaklingum.

Könnunin var framkvæmd 25. ágúst til 10. september sl. Úrtakið var 1.678 manns, 16 ára og eldri og var svarhlutfall 52,4%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert