Matsáætlanir vegna virkjana fyrir norðan

Horft til norðvesturs yfir framkvæmdasvæði Þeistareykjavirkjunar í júlí 2009.
Horft til norðvesturs yfir framkvæmdasvæði Þeistareykjavirkjunar í júlí 2009. Mynd skipulag.is/Emil Þór

Skipulagsstofnun hefur lagt fram tillögur að þremur matsáætlunum vegna virkjunarframkvæmda á norðausturlandi og tengdra framkvæmda. um er að ræða tillögu að matsáætlun vegna 200 MWe jarðhitavirkjunar að Þeistareykjum og Kröfluvirkjun II, allt að 150 MWe jarðhitavirkjun. Að auki er sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík.

Skipulagsstofnun barst í gær tillaga Þeistareykja ehf. að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum Þeistareykjavirkjunar, tillaga Landsvirkjunar að matsáætlun fyrir Kröfluvirkjun II og tillaga Alcoa, Landsnets, Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. að matsáætlun sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur.

Fyrir liggja ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsáætlanir vegna mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur.

Þeistareykjavirkjun

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er talið vera eitt af þremur stærstu jarðhitasvæðum á Norðurlandi eystra. Þeistareykir ehf. var stofnað í apríl 1999. Stofnaðilar voru orkufyrirtækin Orkuveita Húsavíkur og Norðurorka ásamt Aðaldælahreppi og Reykdælahreppi (nú Þingeyjarsveit). Haustið 2005 eignaðist Landsvirkjun um 32% í fyrirtækinu. Áform um byggingu virkjunarinnar eru liður í virkjun háhita á Norðausturlandi, það er á Þeistareykjum, í Kröflu og Bjarnarflagi, fyrir álver á Bakka við Húsavík eða aðra orkukaupendur. Matsferli fyrir rannsóknaboranir í Gjástykki stendur yfir. Samkvæmt stefnu viðkomandi sveitarfélaga verður Gjástykki aftast í framkvæmdaröð jarðhitavirkjana í Þingeyjarsýslum. Í fyrstu verður lögð áhersla á rannsóknir á svæðinu, þar með taldar rannsóknaboranir. Ekki verður virkjað í Gjástykki nema hin svæðin gefi ekki nægjanlega orku fyrir starfsemi og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. 

Þeistareykir ehf. áforma að reisa allt að 200 MWe jarðhitavirkjun á Þeistareykjum og gerð aðkomuvegar frá Húsavík að virkjuninni. Framkvæmdin sem er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er í Þingeyjarsveit og Norðurþingi.
Þeistareykir ehf. höfðu áður lagt fram tillögu að matsáætlun þann 13. mars 2008 fyrir allt að 150 MWe virkjun. Skipulagsstofnun féllst á matsáætlunina 29. maí sama ár. Matsáætlunin var dregin til baka 6. nóvember 2008. Ástæðan er að með úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008, um að meta eigi sameiginlega umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka, var ljóst að endurskoða þyrfti tímaáætlanir verkefnisins. Einnig var talið nauðsynlegt að endurskoða tillögu að matsáætlun fyrir virkjunina í ljósi rannsóknaborana á tímabilinu 2002 til 2008. Að mati sérfræðinga Þeistareykja ehf. á sviði forðafræði er nú talið að svæðið beri allt að 200 MWe virkjun og miðast mat á umhverfisáhrifum við það. Framkvæmdaraðili mun leggja til endanlega stærð virkjunar og sækja um tilskilin leyfi út frá niðurstöðum borana og frekari rannsókna, þó að við mat á umhverfisáhrifum sé gengið út frá tiltekinni hámarksstærð.

Kröfluvirkjun II

Jarðhitasvæðið í Kröflu í Skútustaðahreppi er talið vera eitt af þremur stærstu jarðhitasvæðum á Norðurlandi eystra. Landsvirkjun fyrirhugar að reisa þar allt að 150 MWe jarðhitavirkjun, Kröfluvirkjun II til viðbótar við núverandi 60 MWe Kröflustöð I. Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í þeirri skýrslu sem lögð hefur verið fram er sett fram tillaga að matsáætlun Kröfluvirkjunar II. Í tillögunni er greint frá fyrirhugaðri framkvæmd og efnistökum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Landsvirkjun hafði áður lagt fram tillögu að matsáætlun Kröfluvirkjunar II, nánar tiltekið þann 24. júlí 2008. Sú áætlun var hins vegar dregin til baka þann 6. nóvember sama ár. Ástæður þessa voru þær að með úrskurði umhverfisráðherra um sameiginlegt mat var ljóst að endurskoða þyrfti tímaáætlanir verkefnisins. Einnig var talið nauðsynlegt að endurskoða tillögu að matsáætlun fyrir virkjunina. Að mati sérfræðinga Landsvirkjunar á sviði forðafræði er nú talið að svæðið beri nýja, allt að 150 MWe virkjun, og miðast mat á umhverfisáhrifum við það. Framkvæmdaraðili mun leggja til stærð endanlegrar virkjunar og sækja um tilskilin leyfi út frá niðurstöðum borana og frekari rannsókna þó að við mat á umhverfisáhrifum sé gengið út frá tiltekinni hámarksstærð.

Sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum

Álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, Kröfluvirkjun II og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík

Tillaga að sameiginlegu mati er unnin í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008. Í þeim úrskurði er ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka, felld úr gildi. Þess í stað skuli metin sameiginleg áhrif þessara framkvæmda í samræmi við 2. mgr. 5 gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt úrskurði eru framkvæmdirnar fjórar sem um ræðir eftirfarandi:

  • Þeistareykjavirkjun: Við Þeistareyki er fyrirhugað að reisa allt að 200 MWe jarðhitavirkjun. Framkvæmdaraðili er Þeistareykir ehf.
  • Kröfluvirkjun II: Við Kröflu er fyrirhugað að reisa allt að 150 MWe nýja jarðhitavirkjun. Framkvæmdaraðili er Landsvirkjun.
  • Háspennulínur: Tvær 220 kV háspennulínur frá virkjunarsvæðum á
    háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum að Bakka við Húsavík. Háspennulínurnar munu liggja um sveitarfélögin Skútustaðahrepp, Þingeyjarsveit og Norðurþing. Framkvæmdaraðili er Landsnet.
  • Álver á Bakka: Stefnt er að því að reisa allt að 346.000 t álver á Bakka við Húsavík. Framkvæmdaraðili er Alcoa.

Tímaáætlun matsferlisins er háð framgangi þeirra fjögurra verkefna sem unnið er að samhliða. Í úrskurði umhverfisráðherra kemur fram að frummatsskýrslur fyrir verkefnin fjögur auk frummatsskýrslu um sameiginlegt mat skuli lagðar fram á sama tíma.

Stefnt er að því að helstu tímasetningar í ferlinu verði eftirfarandi:

  • September 2009 - tillaga að matsáætlun lögð fyrir Skipulagsstofnun.
  • Október 2009 - niðurstaða Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun.
  • Janúar 2010 - frummatsskýrsla lögð fyrir Skipulagsstofnun.
  • Maí 2010 - álit Skipulagsstofnunar birt.

Reiknað er með að framkvæmdatími háspennulína sé að jafnaði um 2 ár og rúmlega 3 ár fyrir einn áfanga jarðhitavirkjunar. Gera má ráð fyrir að álver á Bakka verði komið í rekstur á árunum 2013-2015.

Allir geta kynnt sér tillögurnar hjá Skipulagsstofnun og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 12. október 2009 til Skipulagsstofnunar.

Skipulagsstofnun hefur leitað umsagnar Norðurþings, Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar, Ferðamálastofu, Fornleifaverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Landgræðslu ríkisins, Landsnets, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.

Stefnt er að því að ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögur framkvæmdaraðila að framangreindum matsáætlunum liggi fyrir 22. október 2009.

Vefur Skipulagsstofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert