Segist verða var við mikla vinsemd í garð Íslendinga

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/RAX

Í viðræðum sem forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur undanfarna daga átt í New York og Washington við þjóðarleiðtoga og áhrifafólk í alþjóðamálum, fjármálalífi og orkuframleiðslu, hefur komið fram mikil vinsemd og virðing í garð Íslendinga og stuðningur við þá á tímum kreppu og erfiðleika. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá embætti forseta Íslands.

„Þjóðin eigi fjölmörg tækifæri til að styrkja stöðu sína á ný, meðal annars í krafti samvinnu við aðila í öðrum löndum og mikill áhugi sé á slíkri samvinnu við Íslendinga," að því er segir í tilkynningu.

Í gærkvöldi flutti Ólafur Ragnar ávarp, ásamt Joseph Biden varaforseta Bandaríkjanna, í kvöldverði sem haldinn var í hátíðarsal bandaríska utanríkisráðuneytisins í Washington.

„Þar var árangri Íslands á vettvangi hreinnar orku fagnað og forseti ræddi hvernig tæknikunnátta Íslendinga gæti nýst öðrum þjóðum.

Í samtali við forseta sagði Biden varaforseti að hann og Obama forseti hefðu nýlega rætt árangur Íslendinga á þessu sviði og þá lærdóma sem af honum mætti draga.

Kvöldverðinn sóttu um 300 leiðtogar í bandarísku atvinnulífi og orkumálum, forystumenn verkalýðssamtaka og stjórnendur háskóla og sérfræðistofnana," samkvæmt fréttatilkynningu forsetaembættisins.

Ísland gæti orðið vettvangur samræðna hagfræðinga

Ólafur Ragnar átti samræðufund með hópi bandarískra hagfræðinga og sérfræðinga í alþjóðlegum fjármálamörkuðum þar sem rætt var um þróun mála á Íslandi, stöðu landsins og framtíðarhorfur, um samskiptin við AGS og þá lærdóma sem draga megi af reynslu Íslendinga við endurskoðun laga og regluverks sem gildir um hina alþjóðlegu fjármálamarkaði.

Einnig var rætt um þá hugmynd að Ísland gæti á næstu misserum orðið vettvangur fyrir samræður hagfræðinga, sérfræðinga, ýmissa fræðimanna og áhrifafólks í alþjóðamálum um þær breytingar sem þarf að hrinda í framkvæmd til að draga úr líkum á að slíkar kreppur endurtaki sig. Fundurinn var boðaður að frumkvæði Josephs Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði sem nýlega kom til Íslands.

Áhugi á að styðja Ísland

Forseti Íslands átti einnig í gær fundi með Tarja Halonen forseta Finnlands, Václav Klaus forseta Tékklands og Lech Kaczyński forseta Póllands.

„Á öllum þessum fundum kom fram hjá forsetunum mikil vinsemd, áhugi á að styðja Ísland og ánægja yfir að þrátt fyrir mikla erfiðleika væri Íslendingum smátt og smátt og takast að skapa skilyrði fyrir bætt kjör fjölskyldna og atvinnulífs.

Forseti Íslands þakkaði forseta Póllands fyrir þann stuðning sem stjórnvöld í Póllandi hefðu að eigin frumkvæði ákveðið að veita Íslendingum síðastliðinn vetur. Þessa þrjá fundi með forsetunum sat einnig Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Forseti Íslands hefur og rætt við fjölmiðla vestanhafs um stöðu Íslands og framtíðarhorfur, auðlindir landsins og hina alþjóðlegu fjármálakreppu."

Í dag verður Ólafur Ragnar meðal málflytjenda á Leiðtogafundi um orkumál í Washington, National Energy Summity, og á fundi með öldungadeildarþingmanninum Tom Harkin sem lengi hefur verið mikill áhugamaður um málefni Íslands og öldungadeildarþingmanninum Lisa Murkowski sem hvatt hefur til aukinnar samvinnu Íslands og Bandaríkjanna í málefnum norðurslóða.

Á morgun verður Ólafur Ragnar meðal málflytjenda á Heimsþingi Clintons í New York og flytur lokaræðu á málþingi Louise Blouin stofnunarinnar, samkvæmt fréttatilkynningu frá embætti forseta Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert