1.500 tonn af hval til Japan

Í sumar veiddust 125 langreyðar af 150 hvala kvóta.
Í sumar veiddust 125 langreyðar af 150 hvala kvóta. Rax / Ragnar Axelsson

Hvalur hf. er nú að kanna með flutning á afurðum af langreyðunum 125 sem veiddust í sumar til Japan. Þangað verða flutt um 1.500 tonn af kjöti, rengi og ýmsum öðrum afurðum. Í sumar unnu 150-160 manns við hvalveiðarnar og verkun kjötsins.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., sagði að það væri markaður í Japan fyrir hvalkjötið. „Við værum ekki að þessu annars, það segir sig sjálft.“

Einnig er unnið úr hvalnum fyrir innanlandsmarkað. „Við erum að sjóða rengi og súrsa svo það verði orðið klárt fyrir þorrablótin,“ sagði Krirstján. Hann sagði að rengið þyrfti að liggja í mysu í þrjá mánuði áður en það yrði tilbúið. Það verður því tilbúið um áramótin.

Langreyðarvertíðinni lauk í fyrradag. Alls veiddust 125 langreyðar en gefið var leyfi fyrir veiðum á 150 hvölum. Kristján sagði að nokkrar tafir hafi orðið í upphafi vertíðarinnar í ár. 

Langreyðarnar 25 sem ekki veiddust nú flytjast yfir á vertíðina næsta sumar. Kristján sagði að á öldinni sem leið hafi veiðarnar venjulega byrjað í kringum 1. júní og verður stefnt að því að hefja veiðar á þeim tíma næsta sumar. Kristján reiknaði með að tveir hvalbátar yrðu við veiðarnar næsta sumar.

mbl.is