Allir lögðust á eitt við björgunina

Hanna Birna borgarstjóri og Jón Viðar slökkviliðsstjóri skoðuðu verksummerki í …
Hanna Birna borgarstjóri og Jón Viðar slökkviliðsstjóri skoðuðu verksummerki í Höfða. Með þeim eru Magnús Þór Gylfason, aðstoðarmaður borgarstjóra (t.v.) og Ólafur Jónsson innkaupastjóri borgarinnar (t.h.). Árni Sæberg

„Húsið er hér enn og það skiptir mestu, en það hafa orðið skemmdir, sérstaklega í risinu,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstóri. Hún skoðaði Höfða í dag ásamt Jóni Viðari Matthíassyni, slökkviliðsstjóra, og fleirum. Hún sagði að viðgerð eiga að hefjast eins fljótt og auðið verður.

Hanna Birna sagði að þegar hafi verið haldnir fundir vegna eldsvoðans í gærkvöldi og einnig í dag. „Hér hafa menn verið að frá því eldurinn kom upp og í alla nótt við að þurrka og hreinsa. Við erum byrjuð að meta framhaldið. Það er erfitt að segja nú hvernig það verður.

Við stefnum að því hratt og örugglega að húsið komist aftur í notkun sem fyrst. Öll viðgerðarvinna og endurnýjun verður unnin eftir ströngustu skilyrðum til að húsið haldist í upprunalegu horfi.“

Hanna Birna sagði að tryggingarfélag hússins hafi verið á staðnum til að meta skemmdir og vinna að hreinsun. Húsið var brunatryggt. Nú er búið að loka húsinu að mestu fyrir veðrum. 

Hanna Birna þorði ekki að nefna hvenær viðgerð á Höfða gæti lokið. Hún sagði húsið vera sérstakt og það krefjist þess að vandað sé til verka. 

Það vakti athygli í gær að Hanna Birna var fremst í flokki þeirra sem unnu að björgun listmuna og húsgagna úr Höfða. Hún sagði að starfsmenn borgarinnar hafi margir komið til hjálpar.

„Það þurfti margar hendur til að tryggja að verðmætin kæmust óskemmd úr húsi. Það gengu allir til þeirra verka,“ sagði Hanna Birna. „Það var einstakt hvað allir unnu hér fumlaust og samhentir. Þess vegna tókst að bjarga öllum verðmætum úr húsinu. 

Í mínum huga er þetta björgunarafrek og ómetanlegt að við skulum eiga svona stóran og sterkan hóp slökkviliðs- og lögreglumanna og annarra fagmanna sem taka málin jafn föstum tökum og gert var hér í gær.“

Hanna Birna sagði menn telja að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni á háalofti hússins. Eldurinn var mestur í norðvesturhluta Höfða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina