Ráðning Davíðs vekur athygli ytra

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson.

Fréttir af ráðningu Davíðs Oddssonar sem ritstjóra Morgunblaðsins hafa borist víða um nágrannalöndin. Breska blaðið Daily Telegraph segir m.a. frá þessu á vef sínum í kvöld og segir að Davíð hafi ekki átt í vandræðum með að finna nýtt starf þótt hann hafi tengst íslenska fjármálahruninu sem fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri. 

Telegraph segir, að á 13 ára valdatíma sem forsætisráðherra hafi Davíð stýrt einkavæðingu íslensku bankanna þriggja, sem hrundu í október sl. Hafi fréttatímaritið Time sett hann á lista yfir þá 25 einstaklinga, sem helst beri ábyrg á fjármálakreppunni.  

Blaðið hefur eftir ónafngreindum íslenskum blaðamanni, að ráðning Davíðs í ritstjórastarfið hafi komið mjög á óvart og fólk óttist, að hann reyni að endurskrifa söguna sér í hag. „Við höfum áhyggjur af því, að sama valdamikla fólkið er enn við stjórnvölinn." 

Telegraph segir, að blaðið Reykjavik Grapevine, sem gefið er út á ensku í höfuðborginni, hafi ákveðið að taka ekki upp neinar fréttir, sem Morgunblaðið segir fyrst frá, á meðan Davíð sé  ritstjóri.

Breska blaðið lætur þess einnig getið, að íslenskir fjármálamenn hafi lengi haft tögl og hagldir í íslenskum fjölmiðlum. Morgunblaðið hafi þar til í byrjun ársins verið í höndum Björgólfs Guðmundssonar, sem átti ráðandi hlut í Landsbankanum ásamt syni sínum, Björgólfi Thor Björgólfssyni.  

Þá eigi Jón Ásgeir Jóhannesson Fréttablaðið og Stöð 2 en hann hafi haft ráðandi stöðu í Glitni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina