Fréttaskýring: Greiðslubyrði allra lána lækkuð

Bílalán munu lækka
Bílalán munu lækka mbl.is/Ómar Óskarsson

Áður en Alþingi kemur saman á fimmtudag hyggst félagsmálaráðherra kynna áform um lækkun á greiðslubyrði íbúða- og bílalána. Á þetta við um öll verðtryggð og gengistryggð lán, óháð því hvort lántakendur eru komnir í vanskil með lánin eða ekki. Verður greiðslubyrðin færð aftur til þess sem var í maí á síðasta ári og framvegis tekið mið af svonefndri greiðslujöfnunarvísitölu, sem samanstendur af launavísitölu og atvinnustigi í landinu.

Gætu mánaðarlegar afborganir lána lækkað að jafnaði um fjórðung, og þá fyrst 1. nóvember nk., gangi áætlun stjórnvalda eftir. Fyrir þau heimili sem greiða stórar fjárhæðir af bæði íbúða- og bílalánum getur greiðslubyrðin lækkað um tugi þúsunda króna á mánuði.

Endanleg útfærsla á þessu liggur þó ekki fyrir en félagsmálaráðherra mun leggja fram frumvarp á fyrstu starfsdögum Alþingis sem gera á fjármálafyrirtækjum kleift að breyta fyrirkomulagi afborgana.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins er ekki verið að tala um að lækka höfuðstól verðtryggðra lána, líkt og Íslandsbanki hyggst gera og greint var frá í blaðinu í gær. Er sú leið talin geta farið saman með áformum stjórnvalda, þá helst fyrir þá sem eru í söluhugleiðingum, en aðrir bankar hafa ekkert gefið upp hvort þeir fara sömu leið og Íslandsbanki.

Fyrst og fremst miða aðgerðir stjórnvalda að því að létta greiðslubyrðina tímabundið. Ef ekki verður búið að greiða íbúðarlánin niður í lok lánstímans, sem er allt að 40 árum, verða þau mögulega framlengd í skamman tíma. Að þeim tíma loknum verða lánin væntanlega afskrifuð ef með þarf.

Grænt ljós um samráð

Ekki stendur til að afskrifa erlend bílalán heldur lengja þau um allt að þrjú ár. Margir bíleigendur hafa nýtt sér möguleika á að frysta afborganir af þeim lánum en greiðslubyrðin gæti engu að síður lækkað með boðuðum breytingum.

Flest öll fjármálafyrirtæki sem veitt hafa þessi lán hafa fengið kynningu á áformum stjórnvalda; bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir og eignaleigur, sem og aðilar vinnumarkaðarins og Hagsmunasamtök heimilanna. Samkeppnisyfirvöld hafa fyrir sitt leyti gefið grænt ljós á að fjármálafyrirtækin hafi samráð í þessum aðgerðum.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, var meðal þeirra sem áttu fund með félagsmálaráðherra um helgina. Hrafn segir lífeyrissjóðina vera jákvæða gagnvart því að koma til móts við lántakendur. Fyrst og fremst muni sjóðirnir skoða þann skuldahala sem eftir verður, þ.e. hvort og hve mikið þarf að afskrifa af íbúðalánunum. Erfitt sé að segja til um fjárhæðir í þessu sambandi.


Félagsmálaráðherra kynnir áform um lækkun á greiðslubyrði íbúða- og bílalána.
Félagsmálaráðherra kynnir áform um lækkun á greiðslubyrði íbúða- og bílalána. Rax / Ragnar Axelsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »