Heilli þjóð sturtað niður

Erlendir fjölmiðlar rekja þessa dagana margir sögu íslenska hrunsins. Breska blaðið The Times fjallar í dag um löngu máli um atburðina á Íslandi undanfarið ár undir fyrirsögninni: Ísland afhjúpað: Hvernig heilli þjóð var sturtað niður.

Segist blaðamaðurinn Roger Boyes í greininni reyna að útskýra hvernig Íslendingar breyttust úr því að verða hamingjusamasta þjóð í heimi í þjóð með dökkar framtíðarhorfur. 

Í greininni segir m.a. að þegar gengið var til þingkosninga í apríllok, sjö mánuðum eftir hrunið, hafi Íslendingar enn verið reiðir, svekktir og óhamingjusamir. Boyes hefur eftir vini sínum, að hann hafi hitt gamla konu sem var að koma frá því að kjósa í Ráðhúsinu.

„Hvað var þetta fólk að hugsa þegar það mergsaug landið okkar?" er haft eftir konunni. „Þeir munu aldrei geta sýnt sig framar á þessu landi, og ekki börnin þeirra eða barnabörn."

Fram kemur að Boyes er að skrifa bók um íslenska hrunið, Meltdown Iceland, sem kemur út 10. október í Bretlandi.

Greinin í Times

mbl.is