Líst illa á fjárlögin

Fjárlög voru lögð fram á þingi í dag.
Fjárlög voru lögð fram á þingi í dag. Ómar Óskarsson

Höskuldur Þór Þórhallsson, fulltrúi Framsóknarflokks í fjárlaganefnd, segir það gríðarleg vonbrigði að sjá þann mikla niðurskurð sem boðaður er á fjárlögum. „Þetta er töluvert verri staða en maður hafði búist við og var kynnt í sumar. Niðurskurðurinn í heilbrigðismálum er náttúrlega svívirðilegur, svo ekki sé talað um samgöngumálin. Mér finnst í fljótu bragði eins og það eigi að ganga svolítið á landsbyggðina í þessu, sem mér finnst vera afskaplega vont."

Þór Saari, fulltrúa Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd, líst illa á að loka skuli fjárlagagatinu á aðeins þrem árum. Í grannlöndum okkar reyni menn að nota ríkisfjármálin til að milda áhrif kreppunnar. „Þetta er náttúrlega hugmyndafræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og veldur einfaldlega íslensku samfélagi og almenningi allt of miklu tjóni. Í nágrannalöndum þar sem kreppa er viðvarandi og AGS kemur ekki nálægt neinu er einmitt verið að gera þveröfugt."

 Ólöf Nordal situr í fjárlaganefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn, henni finnst að frumvarpið sé ekki tilbúið til framlagningar. Ekki sé búið að ganga frá skattahliðinni. ,,Áform eru uppi um gríðarlegar skatttekjur en ekki búið að útfæra hvernig það eigi að gerast. Hitt er líka athyglisvert að framkvæmd fjárlaga á þessu ári hefur gengið afar illa hjá fjármálaráðuneytinu, hallinn hefur aukist stöðugt allt árið. Mér finnst gríðarleg óvissa og lausatök einkenna þetta allt."

mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert