Reikna með 87 milljarða halla

Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram á Alþingi í dag gerir ráð fyrir 87,4 milljarða halla. Gert er ráð fyrir að skera niður útgjöld um 43 milljarða og afla nýrra tekna með skattahækkunum upp á 61 milljarð.

Horfur eru á að hallinn á ríkissjóði í ár verði 182,3 milljarðar, en það er talsvert verri niðurstaða en gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs sem gerðu ráð fyrir 153 milljarða halla. Fjárlagafrumvarpið gerir því ráð fyrir að hallinn minnki um 100 milljarða milli ára.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 468 milljarðar, en útgjöld 555,6 milljarðar. Tekjur af fyrirhuguðum skattahækkunum eru ekki sundurliðaðar nákvæmlega í fjárlagafrumvarpinu heldur er aðeins gerð grein fyrir áætlaðri skiptinu í helstu skattaflokka. Gert er ráð fyrir að beinir skattar hækki um 37,6 milljarða og óbeinir skattar hækki um 25,5 milljarða. Fyrirhugað er að leggja á nýja orku-, umhverfis- og auðlindagjöld. Einnig er áformað að gera breytingar á vörugjöldum og hugsanlega að breikka stofn virðisaukaskatts.

Þá kemur fram, að reiknað sé með hækkun gjalda á áfengi og tóbak, bensíni og olíu og hækkun bifreiðagjalds. Segir í fjárlagafrumvarpinu að þrátt fyrir tvær hækkanir á árunum 2008-2009 séu þessi gjöld, að tóbaksgjaldi undanskildu, undir upphaflegu raunvirði sínu.

Fjárlagafrumvarpið endurspeglar öðrum þræði að ýmsir tekjustofnar ríkissjóðs hafa skroppið mikið saman vegna kreppunnar. Vörugjöld og tollar skila minni tekjum vegna þess að innflutningur hefur dregist saman um 50% á föstu gengi. Tekjur ríkissjóðs vegna innflutnings á bílum hafa hrunið þar sem sala á bílum hefur minnkað um 80%. Sala á olíuvörum hefur minnkað um 19% sem er meira en spáð var í upphafi árs. Þá hafa tekjur af áfengisgjaldi minnkað um 6%. Tekjur af sköttum á vörur og þjónusta eru 27,3% minni fyrstu 8 mánuði þessa árs en á sama tíma í fyrra.

Svigrúm ríkissjóðs til útgjalda markast m.a. af því að ríkissjóður þarf á næsta ári að greiða 100 milljarða í vexti af síhækkandi skuldum. Vaxtagjöld ríkissjóðs námu 22 milljörðum árið 2007. Stefnt er að því að lækka launaútgjöld ríkissjóðs um 3 milljarða þannig að þau verði um 119 milljarða.

Fjárlagafrumvarpið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert