Sóknarskeið á næsta ári raunhæfur möguleiki

Ólafur Ragnar Grímsson og Karl Sigurbjörnsson voru í fararbroddi þegar …
Ólafur Ragnar Grímsson og Karl Sigurbjörnsson voru í fararbroddi þegar gengið var úr Alþingishúsinu til Dómkirkjunnar við þingsetningarathöfnina. mbl.is/Ómar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði þegar hann setti Alþingi í dag, að vonandi væri að ljúka einu erfiðasta skeiði í sögu þjóðarinnar í nútímanum. Sóknarskeið síðari hluta næsta árs væri raunhæfur möguleiki.

„Margir hjallar eru að baki, aðgerðir sem urðu deiluefni og erfitt reyndist að hrinda í framkvæmd, sársaukafullar fyrir flesta, ekki aðeins þá sem sýndu gáleysi eða glannaskap heldur líka fjölmarga sem gættu hófs, fóru með gát en bera nú saklausir þungar byrðar sem hóflaus sjálftaka og græðgi annarra leggur þeim á herðar.

Enn glíma þúsundir heimila við djúpstæðan vanda, atvinnuleysi, greiðsluþrot. Óvissa, jafnvel ótti, móta víða morgunstund og eignamissir, tekjutap og skuldabyrði setja svip á daglegt líf. Deilan við tvö  nágrannalönd hefur ekki verið til lykta leidd og aðrar þjóðir bíða átekta með að efna gefin fyrirheit. Allt er þetta þungbær reynsla. Ábyrgð okkar sem vorum og erum þjóðkjörnir fulltrúar ótvíræð og örlagarík," sagði Ólafur Ragnar.

Hann sagði, að það væri fagnaðarefni að þrátt fyrir hrun fjármálakerfinsins, erfiðleikana og mistökin væri orðspor Íslands á mörgum sviðum áfram gott. Einnig mætu margir á jákvæðan hátt viðbrögð þings og þjóðar við kreppunni, að hér hafi verið teknar erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir í efnahagsmálum, kallað til lýðræðislegra kosninga og markaður skýr farvegur fyrir rannsókn og ákærur vegna gruns um misferli og glæpi í aðdraganda hrunsins.

„Sá árangur sem útflutningsgreinar hafa skilað, sjávarútvegur, orkuframleiðsla, upplýsingatækni, iðnaður og ferðaþjónustan, tækifærin sem felast í auðlindum landsins og hæfni fólksins, menntun og reynslu, samstaðan sem birst hefur á fjölsóttum hátíðum og viðburðum í byggðum landsins, vinarhugur og samstarfsvilji sem við finnum víða um veröld, allt þetta getur orðið okkur á næstu mánuðum og misserum efniviður í nýtt framfaraskeið," sagði Ólafur Ragnar. „Þegar Alþingi kemur nú saman til fundar eru öll skilyrði til þess að þingheimur í góðri samvinnu við þjóðina rói að því öllum árum að næsta haust verði sóknarskeiðið hafið; tími hinna miklu erfiðleika á hröðu undanhaldi."

Þingsetningarræða forseta Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert