Óráðsía en ekki hagsæld

Á síðustu fjórum árum fyrir hrun óx verg landsframleiðsla að jafnaði um 4,4% á mann á ári. Svo háum hagvexti standa fæstar þjóðir undir þegar til lengri tíma er litið. Skellurinn varð hins vegar meiri en búist var við og að einhverju leyti má kenna útrásartímann við óráðsíu frekar en raunverulega hagsæld.

Þetta er meðal niðurstaðna í stöðuskýrslu, sem Félagsvísindastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafa gert fyrir forsætisráðuneytið en stofnanirnar voru í júní beðnar um að vinna stutta stöðuskýrslu um íslenskt samfélag. Engar frumrannsóknir voru unnar heldur byggt á fyrirliggjandi efni.

Í skýrslunni kemur einnig fram, að kaupmáttaraukning hafi verið mikil síðustu áratugina hjá nánast öllum þjóðfélagshópum. Hagsældin gerði aukin framlög til ýmissa málaflokka mögulega, svo sem til mennta- og heilbrigðismála, en efnislegum gæðum var misskipt, einkum í lok tímabilsins. Kaupmáttaraukning lágtekjufólks og meðaltekjufólks var minni en hjá hátekjufólki. 

Skýrsluhöfundar nefna atvinnuleysi sem mestu hættuna sem steðjar að. Kemur fram í skýrslunni að stjórnvöld ættu að huga að aðgerðum sem tryggja sveigjanleika á vinnumarkaði og hvernig megi koma þeim til aðstoðar sem missa vinnuna. Ef langtímaatvinnuleysi aukist enn frekar þá hafi það ekki aðeins í för með sér efnahagslegan kostnað heldur bætast við ýmis félagsleg vandamál sem erfitt getur reynst að vinna bug á.

Fram kemur að skattar á einstaklinga og fyrirtæki hafi lækkað á síðustu tveimur áratugum. Ein helsta ástæðan fyrir því að stjórnvöld lækkuðu skatta var sú að þannig var talið að mætti lokka hingað erlenda fjárfestingu.

„Reynslan sýnir þó tæpast að sú hafi verið raunin. Fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi hafa eftir sem áður verið aðallega í stóriðju og fjármagnsflutningar til að hagnast á jákvæðum vaxtamun milli Íslands og útlanda," að því er segir í skýrslunni.

Jafnvægisleysi síðustu ára birtist að sögn skýrsluhöfunda í mörgum myndum. Ein er sú að vísitala launa, sem mælir almennt launastig í landinu, hækkaði mun meira en framleiðni vinnuafls. Þetta þýðir að hluti launahækkana Íslendinga var innistæðulaus.

Vandinn er hve fáir eiga í miklum vanda

Fjallað er um skuldir heimilanna í skýrslunni. Þar kemur fram að þær hafi aukist hratt á síðustu árum sérstaklega þó upp úr árunum 2003 og 2005 sem skýrist væntanlega af innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn. 

„Skuldsetningin hefur einnig aukist hröðum skrefum, líka utan hins hefðbundna bankakerfis. Þá virðist vera sem stærstur hluti húsnæðisskuldanna sé hjá þeim sem eiga þrátt fyrir allt stóran hlut í húsnæðinu. Dreifing húsnæðisskulda er hins vegar mjög ójöfn þar sem um 68% húsnæðiseigenda eiga eign sem er minna en 30 milljóna kr. virði en bera um helming af heildarhúsnæðisskuldum þjóðarinnar. Vandinn sem stjórnvöld standa frammi fyrir er að hluta til sá að það eru í raun svo fáir sem eru í miklum vanda. Það þýðir að aðgerðir til hjálpar þessum heimilum, sem fylla þann hóp sem er verst staddur, eru kostnaðarsamar en hjálpa fáum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert