Veðrið að ganga niður

Björgunarsveitarmenn reyna að hemja fjúkandi járnarusl á Kjalarnesi.
Björgunarsveitarmenn reyna að hemja fjúkandi járnarusl á Kjalarnesi. Ragnar Axelsson

„Það er farið að lægja. Flutningabílarnir eru farnir af stað og það segir manni að veðrið er farið að nálgast það að vera skaplegt. Þetta er að lægja,“ segir björgunarsveitarmaðurinn Þórður Bogason um aðstæður á Kjalarnesi á áttunda tímanum í kvöld. Hann segir daginn hafa verið ótrúlegan.

„Ég hef ekki lengi upplifað annan eins hávaða og rok. Þetta er búið að vera svakalegur dagur, gríðarlega hvasst og ekki stætt úti við.“ 

Þórður kveðst ekki hafa orðið var við frekari skemmdir í yfirferð björgunarsveitanna í kvöld en fyrr í dag komust sveitarmenn í hann krappan þegar fárviðrið olli stórtjóni á aflögðum refa- og minkaskemmum við bæinn Hjassa á Kjalarnesi, skammt frá Brautarholti. Þakplötur rifnuðu af skemmunum og 20 feta, niðurnjörvaður, tómur flutningagammur (sjá mynd) tókst á loft í veðurofsanum.

„Þarna var gámur sem við sjáum rúlla af stað. Hann byrjar að auka ferðina og við sáum hann í fimm til sex metra hæð yfir nokkurra metra hárri vindmön. Hann lyftist vel upp í loft og skall svo til jarðar rétt fyrir aftan félaga okkar sem var á dráttarvélinni.

Við rétt náðum að kalla í manninn og segja honum að færa sig áður en gámurinn lenti á dráttarvélinni. Það hefði ekki þurft að spyrja að því.

Um leið og gámurinn lenti bakkaði hann dráttarvélinni og setti skófluna ofan á hann svo hann héldi ekki áfram á það sem eftir var af refa- og minkahúsunum og splundraði þeim endanlega. Ef gámurinn hefði splundrað húsunum hefði brakið líklega tekist á loft og stefnt að Brautarholti.“

Íbúar Brautarholts heppnir 

Þórður segir járnplötur hafa fokið af refa- og minkahúsunum og stefnt á Brautarholt, nærliggjandi bæ.

„Þessi gömlu refa- og minkahús sprungu í ofsanum. Þakplötur þeyttust að Brautarholti og húsunum þar og þar var fólk hreinlega heppið að þar eru mikil og stór tré sem fönguðu þakplöturnar áður en þær hefðu fokið inn um stofugluggann hjá því.“ 

Refa- og minkahúsin aflögðu eru gegnt bænum Hjassa en þaðan eru að sögn Þórðar um 600 til 700 metrar til Brautarholts.

„Þetta er eldgamalt og löngu aflagt. Þetta er núna notað sem geymsluhúsnæði undir ýmiss konar dót sem er búið að vera þarna lengi,“ segir hann um refahúsin.

Dráttarvélin sem tókst að færa í tæka tíð var notuð …
Dráttarvélin sem tókst að færa í tæka tíð var notuð til að halda gáminum niðri. mbl.is/Þórður Bogason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert