Veðurofsi á siglingu til hafnar

Sturlaugur H. Böðvarsson AK
Sturlaugur H. Böðvarsson AK Af vef HB Granda

Áhöfnin á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK lenti í brjáluðu veðri á siglingu til heimahafnar og mun skipið væntanlega ekki halda úr höfn fyrr en á morgun þar sem veðurspáin er mjög slæm fyrir nóttina á miðunum, að því er fram kemur á vef HB Granda.

„Það er óhætt að segja að það hafi verið lurkur í honum. Kolbrjálað veður á heimsiglingunni og hún gekk því rólega,“ sagði Gunnar Einarsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, í samtali við vef HB Granda um hádegisbilið en skipið var þá komið til hafnar á Akranesi.

Þessi veiðiferð varð reyndar miklu mun styttri en ætlað var því eftir um sólarhring á veiðum bilaði svokallaður spilrótor í annarri togvindunni og því var ekki um annað að ræða en að leita hafnar.

„Við vorum úti á Fjöllunum og aflinn var ágætur eða um 25 tonn af karfa á þessum stutta tíma. Við vorum reyndar komnir norður undir Eldeyjarbankann þegar bilunin varð og því var stefnan tekin til Akraness. Vindhraðinn sló upp í 30 metra á sekúndu á leiðinni heim en ölduhæðin var ekki til vandræða,“ segir Gunnar en að hans sögn eru öll skip, sem voru að veiðum suður í Skerjadjúpi og á Reykjaneshryggnum, nú komin í var við Garðskaga og þar munu þau bíða þess að veðrið gangi niður.

„Þetta er með krappari haustlægðum sem ég man eftir. Það er spáð snælduvitlausu veðri á miðunum í nótt þannig að við förum ekki út að nýju fyrr en í fyrramálið,“ sagði Gunnar Einarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert