Hörmuleg staða Húnvetninga

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Kristinn Ingvarsson

„Heimamenn reyndu að verja sparisjóðinn sinn fyrir eyðileggingaröflum græðginnar, sem stjórnvöld á þeim tíma leyfðu að stórskaða sparisjóðakerfið um allt land,“ segir Jón Bjarnason sjávarútveg- og landbúnaðarráðherra um fjárhagsvanda heimila í Húnaþingi vestra og Bæjarhreppi.

Eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag stendur um fimmta hvert heimili í sveitarfélögunum tveimur frammi fyrir alvarlegum fjárhagsvanda eða persónulegu gjaldþroti vegna skuldsettra kaupa á stofnfé í Sparisjóði Húnaþings og Stranda. Til að styrkja stöðu sjóðsins, áður en gengið var frá fyrirhugaðri sameiningu sjóðsins við Sparisjóð Keflavíkur, var ákveðið að auka stofnfé, sem var um 1,9 milljónir, í 1,9 milljarð. Það þýðir um 1000-földun stofnfjárins. Landsbankinn fjármagnaði stofnfjáraukninguna að mestu með lánum í erlendri mynt.

Um 140 stofnfjáreigendur tóku lán til kaupanna með veðum í bréfunum sjálfum, en einnig er persónuleg ábyrgð á þeim. Margir skulda milljónatugi og dæmi eru um fjölskyldur sem skulda á annað hundrað milljónir. „Heimamenn reyndu að bregðast við því þegar fjármálamenn fóru um sveitir og keyptu upp sparisjóði. Ég var í hópi þeirra sem vöruðu við því að sparisjóðakerfið yrði malað niður og völdin tekin af heimamönnum. Því miður hefur þessi barátta heimamanna snúist upp í andhverfu sína og endað með skelfingu. Vonandi verður hægt að koma í veg fyrir að fjölskyldur lendi í fjárhagsvandræðum vegna þessa,“ segir Jón sem jafnframt er þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Haft er eftir Jóni Óskari Péturssyni, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, í Morgunblaðinu í dag að þeir sem tóku lánin í stofnfjáraukningunni séu bændur og launafólk í heimahéraði.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, segir það óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir algjört hrun í byggðum þar sem mikill skuldabaggi vegna stofnfjáraukningar í sparisjóðum blasir við.  „Það er hrikalegt að hugsa til þess að fólk sé í þessum vanda. Því miður er þetta eina dæmið er varðar sparisjóðina. Ég varaði við því í sumar, í umræðum á Alþingi, að það yrði farin sú leið, í stórum stíl, að færa niður stofnfjárhluti fólks einmitt vegna þess að það kemur sér illa fyrir heimamenn, svo ekki sé meira sagt. Stofnfé er ekki eins og hlutafé í þeim skilningi að verðmætið ræðst einfaldlega að framreiknuðu upphaflegu stofnfé. Við getum ekki látið eins og ekkert hafi í skorist, hvorki um þetta tilfelli né önnur. Það verður að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að heimamenn lendi í vanda og í versta falli í gjaldþroti vegna þessarar stöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert