Jóhanna beitti sér gegn láninu

„Ég hef heyrt að Jóhanna hefði sent Stoltenberg tölvupóst þar sem hún hefði sagt að förin okkar væri henni mjög óþægileg og því beðið forsætisráðherrann um svona bréf,“ segir Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, um bréf forsætisráðherra Noregs til Jóhönnu Sigurðardóttur.

Höskuldur Þór og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, eru nýkomnir úr ferð til Noregs þar sem þeir ræddu við fulltrúa norsku flokkanna um möguleika á risaláni til Íslands.

Höskuldur Þór segir að ef rétt reynist hafi Jóhanna valdið íslensku þjóðinni miklum skaða með því að leggja stein í götu lánsins, en í bréfi Stoltenbergs kemur fram að útilokað sé að Norðmenn veiti Íslandi hærra lán og jafnframt ítrekað að Ísland verði að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áður en hægt sé að afgreiða upphaflega lánið.

„Ef svo er þá það skemmdarverk gagnvart íslensku þjóðinni. Við fengum engin önnur svör en að það þyrfti að koma formlegt boð. Það var alveg sama við hverja við töluðum. Fulltrúi Sósíalíska vinstriflokksins í fjárlaganefnd hefur sagt að það eigi að ræða þessi mál upp á nýtt í Noregi."

Höskuldur sagði ennfremur að það væri ekki rétt að fulltrúar Framsóknarflokksins hefðu í viðræðunum í Noregi farið fram á 2.500 milljarða lán. Þeir hefðu óska eftir lánafyrirgreiðslu sem væri innan við helmingur af þessari upphæð. Jafnframt hefðu þeir lagt áherslu á að Ísland þyrfti á lánalínum að halda frekar en láni. Norðmenn sem þeir hefðu rætt við hefðu talið að þetta væri skynsamleg aðferðarfræði.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
mbl.is

Bloggað um fréttina