19 sagt upp hjá Mílu ehf.

Með samdrætti í byggingariðnaði hefur vinna hjá tæknimönnum Mílu ehf. …
Með samdrætti í byggingariðnaði hefur vinna hjá tæknimönnum Mílu ehf. sem leggur og rekur fjarskiptakerfi landsmanna, dregist saman. Heiðar Kristjánsson

Fyrirtækið Míla ehf., sem rekur fjarskiptanet allra landsmanna, hefur ákveðið að segja upp 19 manns, níu á landsbyggðinni og 10 á höfuðborgarsvæðinu. Páll Á. Jónsson, framkvæmdastjóri Mílu, segir að þessi ákvörðun sé tilkomin vegna þess að lítið sé um að vera í byggingariðnaði og það hafi áhrif á starfsemi Mílu.

„Ætli við séum ekki með um tvo milljarða króna í ónotaðri fjárfestingu í nýjum götum,“ sagði Páll. Flestir af þeim sem sagt hefur verið upp eru tæknimenn sem unnið hafa við að leggja fjarskiptakerfi í ný hverfi. Vegna samdráttar í byggingariðnaði hefur vinna hjá þessum mönnum dregist saman sem leitt hefur til þess að þeim hefur verið sagt upp störfum. Páll sagði þessa ákvörðun þungbæra fyrir fyrirtækið og starfsmennina.

Páll sagði að stefnt væri að því að semja við þjónustuaðila á nokkrum stöðum á landsbyggðinni um að taka yfir þjónustu við viðskiptavini á viðkomandi svæðum. Hann sagðist gera sér vonir um að einhverjir af þeim sem sagt hefur verið upp störfum fái vinnu hjá þessum samstarfaðilum.

Á landsbyggðinni mun Míla breyta starfsemi sinni á Patreksfirði, á Húsavík, í Borgarnesi og í Stykkishólmi. Snerpa á Ísafirði mun taka við þjónustu við fjarskiptanet Mílu á  Patreksfirði en Míla er fyrir með samning við Snerpu um þjónustu við fjarskiptakerfi sitt á Vestfjörðum. Á Húsavík verður samið við einn af starfsmönnum Mílu um að taka að sér að vera þjónustuaðili á svæðinu. Hann mun, eftir atvikum, semja við fleiri heimamenn um að taka þátt í verkefnum með sér.  Borgarnesi og Stykkishólmi verður hér eftir þjónað frá samstarfsaðilum á svæðinu og verður gerður samningur þess efnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert