Ekki óvenju mikið um veik skólabörn

Vel er fylgst með heilsu barna og starfsmanna í leik- …
Vel er fylgst með heilsu barna og starfsmanna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Börnum er kennt að gæta fyllsta hreinlætis og þvo sér vel um hendur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Golli

Ekki er meira tilkynnt um veikindi meðal grunn- og leikskólabarna í Reykjavík en gengur og gerist á þessum árstíma samkvæmt upplýsingum frá mennta- og leikskólasviði Reykjavíkurborgar. Vel er fylgst með þróun mála, t.d. í tengslum við það hvort  svokölluð svínaflensa eða önnur veiki breiðist út.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur nokkuð borið á að börn hafi verið frá skóla í dag vegna veikinda, en að sögn borgaryfirvalda er vera að skoða málið. Ekki líti út fyrir að tíðnin sé óvenju há.

Unnið er samkvæmt viðbragðsáætlun og er mikil áhersla lögð á að kenna börnum og starfsfólki skólanna að gæta fyllsta hreinlætis, þvo sé vel um hendur, nota handspritt o.s.frv.

Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu hefur inflúensulíkum sjúkdómstilfellum fjölgað talsvert hérlendis undanfarnar tvær vikur, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Hátt hlutfall sýna frá þessum sjúklingum greinist með inflúensu A(H1N1)v á veirufræðideild Landspítala sem bendi til þess að flest tilfellin séu af völdum inflúensunnar. Því megi búast við útbreiddum faraldri á næstunni.

Á vef embættisins er jafnframt tekið fram að engin ástæða sé til þess að breyta almennum sóttvarnarráðstöfunum hér á landi. Enn sem fyrr séu þeir, sem veikjast með inflúensulík einkenni, hvattir til að halda sig heima í allt að viku frá upphafi einkenna, eða þar til þeir hafi verið einkennalausir (hitalausir) í tvo daga.

Þá sé mikilvægt að þeir, sem séu sýktir, haldi fyrir vit sér með bréfklút eða öðru til að hindra dreifingu úða frá hnerra eða hósta. Jafnframt sé mikilvægt að þvo hendur reglulega og nota handspritt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert