Ekki vitað hvar konan er

Konan, sem lögreglan á Suðurnesjum lýsti eftir í dag.
Konan, sem lögreglan á Suðurnesjum lýsti eftir í dag.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir að grunur leiki á að litháísk kona, sem lýst var eftir í morgun, sé í samneyti við Litháa hér á landi tengdum þremur mönnum, sem nú sitja í gæsluvarðhaldi vegna máls konunnar.

Fram kom hjá Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, staðgengli lögreglustjórans á Suðurnesjum í Kastljósi Sjónvarpsins, að ekki sé vitað hvar konan er niðurkomin og hvort hún er heil á húfi. Einnig kom fram, að nú er talið að maður, sem lýst var eftir í morgun vegna málsins, hafi farið af landi brott áður en konan kom til landsins síðastliðinn föstudag. 

Lögreglan telur að konan hafi verið flutt til landsins sem fórnarlamb mansals og hafi komið hingað til lands á stolnum ferðaskilríkjum. Hún kom hingað undir nafninu Ieva Grisiúte.

Konan kom hingað til lands með flugi síðastliðið föstudagskvöld og var flutt rænulítil á sjúkrahús eftir að hafa látið ófriðlega í flugvélinni síðasta hluta leiðarinnar. Hún dvaldi á sjúkrahúsi aðfararnótt laugardagsins en síðan hjá lögreglunni á Suðurnesjum að eigin ósk. Hún sagðist ekki eiga í nein hús að venda og engan þekkja hér á landi og gat litlar skýringar gefið á ferð sinni hingað til lands.

Lögreglan varð vör við þrjá menn sem biðu eftir konunni og reyndu að ná sambandi við hana. Lögregla þekkti til mannanna sem allir eru Litháar og þekktir brotamenn. Alda Hrönn sagði, að mennirnir hefðu leitað að konunni við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og einnig sést í nágrenni við lögreglustöðvar í Reykjanesbæ.

Konan sást síðast um kl. 23:30 á mánudagskvöld þegar hún yfirgaf húsnæði sem lögreglan og félagsþjónustan í Reykjanesbæ útvegaði henni. Hún er með axlasítt svart hár og talin hafa verið klædd í svarta hálfsíða hettuúlpu/kápu, svartar gallabuxur, ljósgula peysu og brúna skó þegar hún hvarf.

Fram kom hjá Öldu Hrönn, að ekki sé talið að konan hafi verið numin á brott heldur séu þvert á móti vísbendingar um að hún hafi farið sjálfviljug. Það sé raunar eitt einkenni mansalsmála að það taki tíma að vinna traust ætlaðra fórnarlamba mansals.

Alda Hrönn sagði að lögreglan hefði rökstuddan grun um að mennirnir, sem eru í haldi, tengist máli stúlkunnar en annað mál sé að sanna að þeir tengist mansali.

mbl.is