Margir glæpahópar með erlend tengsl

Arnar Jensson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir á blaðamannafundinum í dag.
Arnar Jensson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Margir glæpahópar hérlendis falla undir skilgreiningu evrópsku lögreglunnar Europol um skipulagða glæpastarfsemi, þar á meðað pólskir, litháískir og íslenskir glæpahópar með tengsl erlendis.

Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar á Suðurnesjum í dag en Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og tengslafulltrúi hjá Europol þjófnaðir, sat meðal annars fundinn.

Fram kom hjá Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum, að mansalsmálið, sem sé til rannsóknar hér, sé hugsanlega hluti af stærra máli og verið sé að rannsaka hvort hér sé um að ræða skipulegt mansal.

„Við höfum verið óvenjulega örlát á upplýsingar í þessu máli, umfram það sem venjan er. Ástæðan er sú að fjölmiðlar urðu í upphafi til að hjálpa okkur mikið við rannsóknina," sagði Sigríður Björk.

Fram kom á fundinum að meðal þess sem verið sé að rannsaka í tengslum við málið séu  fjármunabrot, þjófnaðir, ofbeldisbrot, fíkniefnabrot, skjalafals og peningaþvætti.

Fimm karlmenn frá Litháen og þrír íslenskir karlmenn eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Fram kom á fundinum að lögreglan útilokar ekki að fleiri þolendur mansals séu hér á landi en konan, sem kom hingað til lands fyrir hálfum mánuði og var upphafið að rannsókninni. Þá útilokar lögreglan ekki heldur frekari handtökur eða húsleitir.
mbl.is