Vel sótt hugmyndaþing

Hugmyndir frá borgarbúum voru festir á fleka sem tilheyrðu ákveðnum …
Hugmyndir frá borgarbúum voru festir á fleka sem tilheyrðu ákveðnum flokkum.

Hugmyndaþing Reykjavíkur þótti vel heppnað en mörg hundruð lögðu leið sína í Ráðhús Reykjavíkur í dag og tóku þátt í hugmyndaþingi sem borgarstjórn Reykjavíkur efndi til. Gafst borgarbúum þar tækifæri til að koma með hugmyndir að betri borg.

Á hugmyndaþinginu sem hófst klukkan 13 voru borgarfulltrúar allra flokka sem og starfsmenn borgarinnar til taks í fimm hugmyndasmiðjum þar sem sem borgarbúar gátu komið á framfæri hugmyndum sínum að betri borg.

Gátu þeir rætt við borgarfulltrúa, skrifað hugmyndir á miða eða teiknað myndir og fest síðan á fleka merktum þeim málaflokki sem hugmyndin heyrði til. Er talið er að um þúsund hugmyndir hafi þannig komið fram og þykir borgaryfirvöldum sem þarna sé komin góð leið til hugmyndaöflunar.

Þá var boðið upp á fyrirlestra þar sem fyrirlesarar úr öllum áttum kynntu hugmyndir sínar varðandi framtíð borgarinnar. Voru margir sem sóttu þessa fyrirlestra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir Hugmyndaþingið komið til að vera og að það verði einnig kynnt í hverfum borgarinnar. „Framtíðin er borgarbúum greinilega hugleikin og börn jafnt sem fullorðnir tóku þátt. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu fjölbreyttar hugmyndirnar eru, en þær spanna allt frá smæstu verkefnum borgarinnar yfir til þeirra stærstu.“

Hanna Birna segir að nú taki við úrvinnsla þessara hugmynda, þar sem markmiðið sé að finna þeim stað í Sóknaráætlun fyrir Reykjavíkurborg, en drög að henni voru einnig kynnt á Hugmyndaþinginu í dag. Sóknaráætlunin ber yfirskriftina „Skrefi á undan“ en aðgerðirnar sem þar eru lagðar fram eru afrakstur yfirgripsmikillar vinnu sem fram fór á vegum Reykjavíkurborgar á vormánuðum til að greina sóknartækifæri fyrir borgina um leið og leitast var við að koma auga á hvað þyrfti að varast í núverandi efnahagsumhverfi. 

Að þessari vinnu komu borgarfulltrúar allra flokka, stjórnendur og starfsmenn borgarinnar, fulltrúar úr atvinnulífi, ungmennaráði Reykjavíkur, Reykjavíkurakademíunni og fulltrúar íbúa.  

Enn er hægt að koma með hugmyndir til ráðhússins og einnig má senda þær á netfangið: hugmynd@reykjavik.is frá og með morgundeginum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert