Greitt með eðlilegum hætti af meginþorra íbúðalána

Samkvæmt nýrri skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika er greitt með eðlilegum hætti af 85-90% allra fasgteignalána í krónum. Um er að ræða bráðabirgðatölur en Seðlabankinn vinnur nú að því að afla frekari upplýsinga hjá viðskiptabönkum og fjármálafyrirtækjum um stöðu mála.

Um 5% þessara lána eru í greiðslujöfnunm og um 7% í fyrstingu samkvæmt skýrslu Seðlabankans. Fram kemur í skýrslunni að miðað við eftirstöðvar íbúðalána við lok síðasta árs voru 87% heildaríbúðalána í krónum. Seðlabankinn telur í ljósi þessa að greitt sé af með eðlilegum og óbreyttum hætti af meginþorra allra íbúðalána. Þó eru vísbendingar um að um 9% heildaríbúðalána í krónum séu í vanskilum og þar af 6% í alvarlegum vanskilum.

Fram kemur í skýrslunni að um 9% heimila séu með íbúðalán sem eru gengistryggð fasteignalán að hluta eða öllu leyti. Vísbendingar séu um að um fimmtungur gengistryggðra íbúðalána séu í vanskilum hjá stóru viðskiptabönkunum og þar af liðlega 10% í alvarlegum vanskilum.

Fjármálastöðugleiki

mbl.is