Ísland ekki með á makrílfundi

Íslendingar eru ekki með í viðræðum strandríkja um makrílveiðar í …
Íslendingar eru ekki með í viðræðum strandríkja um makrílveiðar í N-Atlantshafi.

Íslendingar taka ekki þátt í samningafundi um makrílveiðar, sem hófst í dag í Cork á Írlandi. Formaður norsku sendinefndarinnar, Johan Williams úr sjávarútvegsráðuneyti Noregs, segir að Ísland verði að fara að haga sér sem „alvöru strandríki“ áður en því verði boðið að samningaborðinu.

„Við sjáum það sem markmið að samið verði um að Ísland verði með, en það hefur ekki verið í neinu samræmi við aðra og ekki viljað eiga samstarf. Ísland læst vera móðgað yfir að því er ekki boðið til samningaviðræðna um makrílinn, en landið verður fyrst að fara að haga sér sem alvöru strandríki áður en af því verður,“ hefur vefsíða Aftenbladet eftir Williams.

Friðrik J. Arngrímsson,  framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, sagði að Íslandi hafi ekki verið boðið sem fullgildu strandríki til fundarins. Það muni heldur ekki mæta nema sem slíkt.

Makrílgegnd á Íslandsmiðum hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Í fyrra voru veidd hér 112.000 tonn af makríl, mest í júlí og ágúst. Enn meiri makríll kom hingað í sumar. Þann 8. júlí síðastliðinn var búið að veiða yfir 90.000 tonn af makríl og þá voru veiðarnar takmarkaðar mjög. Makríll var einungis veiddur sem meðafli með norsk-íslenskri síld eftir það, að sögn Friðriks. 

„Þeir hafa haldið okkur frá samningaborðinu árum saman. Lengst af héldu þeir því fram að það væri ekki makríll hérna. Við yrðum að sýna fram á það. Það getum við ekki gert nema veiða makríl. Þá erum við gagnrýndir fyrir það,“ sagði Friðrik.

Hann sagði að því fyrr sem makrílþjóðirnar viðurkenni Ísland sem strandríki, og það beri þeim að gera samkvæmt Hafréttarsáttmálanum, því betra. „Ef makríllinn er farinn úr norskri lögsögu má vel vera að við getum leyft þeim að veiða eitthvað innan íslensku lögsögunnar,“ sagði Friðrik.

Aftenbladet segir að makrílviðræðurnar muni standa í viku og verði ekki auðveldar þótt ekki eigi að ræða annað en heildaraflamark í makríl og skiptingu þess milli landanna. Í haust var norskum skipum meinað að veiða makríl í lögsögu ESB-ríkja og er talið að það muni ekki greiða fyrir samkomulagi.

Þá mun það gera viðræðurnar erfiðari en ella að löndin úthlutuðu sjálfum sér kvóta fyrir yfirstandandi ár sem skiptust í „suðlægan“ og „norðlægan“ hluta. Búið var að ákveða 569 þúsund tonna makrílkvóta á þessu ári.

Eftir að búið var að skipta kvótanum á milli landanna fyrir þetta ár óskaði ESB eftir að úthluta sjálfu sér kvóta upp á 36 þúsund tonn fyrir „suðlæga“ hlutann. Norðmenn og Færeyingar brugðust við með að taka sér jafn stóran kvóta fyrir „norðlæga“ hlutann. Norðmenn fengu þannig 40% stærri makrílkvóta á þessu ári en í fyrra.

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ
Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ mbl.is
mbl.is