Verulegar líkur á að ekki verði framlengt

Fulltrúar SA og ASÍ á fundi í gærkvöldi.
Fulltrúar SA og ASÍ á fundi í gærkvöldi. mbl.is/Heiðar

„Það er þungt yfir,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, eftir að stjórnarfundi lauk í dag. Hann segir málin standa þannig, að verulegar líkur séu á að kjarasamningar verði ekki framlengdir. Áfram verði þó unnið að málinu eða allt þar til yfir lýkur. Frestur rennur út á miðnætti.

Vilhjálmur var töluvert svartsýnni eftir fundinn en fyrir og segir hann það helgast af því sem heyrist frá baklandinu. „Þetta er ekki komið. Þó svo að það sem stendur út af borðinu sé í sjálfu sér einföld atriði er um pólitískar ákvarðanir að ræða sem þarf að taka. Og þær er auðvelt að taka ef menn eru í þeim gír.“

Helstu atriði sem strandar á eru skattamálin, fjárfestingar, sjávarútvegsmál og atvinnutryggingar, að sögn Vilhjálms. Hann segir að áfram verði unnið í dag en því miður sé það raunverulegur möguleiki að samningar verði ekki framlengdir. „Við höfum tíma til miðnættis og ætlum okkur að nýta hann allan. Okkur þykir mikilvægt að ná þessu saman og ætlum ekki að gefast upp fyrr en á síðustu stundu. Boltinn er hins vegar hjá ríkisstjórninni.“

Stjórn samtakanna mun koma saman að nýju í kvöld og endurmeta stöðuna.

mbl.is