ASÍ: Ekki viðunandi grunnur

Skrifað undir stöðugleikasáttmálann í sumar.
Skrifað undir stöðugleikasáttmálann í sumar.

Alþýðusamband Íslands segir, að yfirlýsing forsætisráðherra og fjármálaráðherra um stöðugleikasáttmálann sé ekki viðunandi grunnur undir áframhaldandi samstarfi. Óskað hafi verið eftir viðræðum við stjórnvöld til þess að freista þess að jafna þessa deilu.

Í yfirlýsingu frá ASÍ segir, að  í viðræðum gærdagsins um framlengingu kjarasamninga og framtíð stöðuleikasáttmálans hafi komið upp nokkuð flókin staða á síðustu metrum viðræðnanna þegar óvænt útspil ríkisstjórnarinnar leit dagsins ljós.

„Ljóst er að aðilar höfðu náð verulega langt í að jafna ágreining sem uppi var og tekist að einangra deiluna við eitt tiltekið efnisatriði. Efast er um vilja ríkisstjórnarinnar til þess að setjast að raunverulegum viðræðum við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á áformum um nýja orku-, auðlinda- og umhverfisskatta – áformum sem sett hafa nýfjárfestingar í verulega óvissu á þessum viðsjárverðu tímum. Mikilvægt er að hafa í huga að skýr vilji hefur komið fram af hálfu atvinnulífsins til þess að axla þessa skattbyrði með öðrum hætti, m.a. tillögum um hækkun á atvinnutryggingagjaldi til þess að standa undir kostnaði við Atvinnuleysistryggingasjóð og eftir atvikum aðra skattheimtu þannig að heildarskatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga raskist ekki. Verulega skortir á að vilji ríkisstjórnarinnar komi fram í þeirri yfirlýsingu sem ríkisstjórnin sendi frá sér í dag og voru fulltrúar ASÍ sammála um að framlögð tillaga gangi ekki að óbreyttu," segir í yfirlýsingunni.

Þá sé jafnframt mat ASÍ að við þessar aðstæður í efnahags- og atvinnulífi sé ekki rétti tímapunkturinn til þess að gera miklar umbyltingar í skattamálum, m.a. vegna breyttra áherslna í umhverfis- og loftslagsmálum. Slíkar breytingar þurfi einfaldlega meiri undirbúning og aðlögun til þess að koma í veg fyrir óæskileg áhrif á nýjar ákvarðanir um fjárfestingar í atvinnuuppbyggingu.

„Á þeirri forsendu lítur samninganefnd ASÍ ekki á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um framgang stöðugleikasáttmálans sem ásættanlegan grunn fyrir áframhaldandi samstarfi," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert