Nítján kindur heimtar af Tálkna

Nítján kindur voru heimtar af Tálkna í gær en fimm …
Nítján kindur voru heimtar af Tálkna í gær en fimm fóru fram af björgum. Fimm til sjö eru enn eftir. mbl.is

Smölun útigangskinda á fjallshryggnum Tálkna sem liggur milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar fór fram í gær . Nítján kindur fundust og voru allar ómerktar nema ein. Fara þær allar í sláturhús á morgun. Fimm til sjö kindur náðust ekki og verður farið eftir þeim á næstunni.

Ragnar Jörundsson, bæjarstjóri Vesturbyggðar, sagði leitina hafa gengið vel fyrir sig. Fjórtán manns hefðu lagt af stað í birtingu, bæði frá Tálknafirði og Vesturbyggð, og komið hefði verið til byggða um níu í gærkvöldi. Veðrið hefði verið gott og gerði það mikinn baggamun enda landið víða mjög erfitt yfirferðar.

Nítján kindur fundust og voru allar ómerktar utan ein og tilheyra þær sveitarfélaginu. Mjög erfitt var að eiga við fimm kindanna og fóru þær í lokin fram af björgum. Björgunarsveitin náði í skrokkana með bát. Ekið verður með hinar fjórtán á sláturhús í fyrramálið

„Svo voru þarna einar fimm til sjö kindur sem náðust ekki. Það verður farið eftir þeim einhverja næstu daga þegar menn verða búnir að hvíla sig,“ sagði Ragnar.

Ekki kom til þess að skjóta þyrfti neina kindina að þessu sinni en menn voru með skotvopn til taks ef til þess kæmi, þ.e ef þær kæmu sér í þannig sjálfheldu að ekki væri hægt að nálgast þær.

„Samkvæmt heimildum er búið að vera þarna villt fé frá miðri síðustu öld og margir vilja meina að þetta sé orðið að sérstöku kyni meðan aðrir segja að þarna sé úrkynjun á ferð. Féð er nokkuð háfættara en venjan er núna þótt það hafi kannski verið svona almennt á fyrrihluta síðustu aldar. Síðan hefur heimafé verið ræktað mikið,“ segir Ragnar.

Lögum samkvæmt ber hverju sveitarfélagi að standa fjallskil. „Ef það ætti að leyfa útigöngu fjár þarna þyrfti að breyta lögunum, núna er ekki til neitt sem heitir villt sauðfé,“ segir Ragnar.

Hann sagði það augljóst að féð hefði þurft að líða mikið harðræði. Sá eini hrútur sem fannst hefði til dæmis greinilega fótbrotnað og það svo gróið vitlaust saman. Það bæri einnig vott um mikil afföll ef einungis væri einn hrútur í fénu ef á svæðinu hefur verið villt fé í svo langan tíma.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert