Greiðsluvanda ýtt á undan sér

Stofnun um fjármálalæsi við Háskólann í Reykjavík telur að nýboðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, komi lítt að tilætluðum notum nema fyrstu 3-4 árin. Eftir það verði heildargreiðslubyrði lána meiri ef menn tengi lán við greiðslujöfnunarvísitölu í stað tengingar við vísitölu neysluverðs eins og nú er. Því sé með aðgerðunum verið að ýta greiðsluvanda heimilanna á undan sér.

Stofnunin segir, að í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sé gert ráð fyrir að afborganir lána verði tengdar við greiðslujöfnunarvísitölu en höfuðstóll þeirra verði áfram tengdir verðbólgu eða gengi erlendra gjaldmiðla. Stofnunin bendir á að félags- og tryggingamálaráðuneytið hafi ekki gert neinar spár um þróun vísitölunnar sem verði að teljast óheppilegt í ljósi þess að á henni hvíli hvort aðgerðirnar nái markmiðum sínum, þ.e.a.s. að létta byrðar fólks.

Til að leggja mat á aðgerðirnar hefur Stofnun um fjármálalæsi reynt að spá fyrir um þróun greiðslujöfnunarvísitölunnar og bera saman við mögulega þróun verðbólgu. Miðað við spár um atvinnustig, launaþróun og verðbólgu kemur í ljós að afborgun af verðtryggðu íbúðaláni með föstum 4,15% vöxtum sem tekið er 1. júlí 2007 verður 17% lægri með greiðslujöfnunarvísitölunni árið 2009 en það væri án nokkurra aðgerða. 2010 munar 10%, 2011 munar 8% og 2012 munar 1%. Ári síðar er munurinn horfinn og greiðslubyrðin vex út lánstímann.

Stofnun um fjármálalæsi segir,  að gallinn við aðgerðirnar sé einkum fólginn í því að afborganir lána skuli tengdar við þróun launa og atvinnustigs. Það þýði að ef atvinnustig verður áfram lágt og meðallaun hækka ekki, haldist greiðslubyrðin í samræmi við það. Þegar greiðslugetan aukist með hækkandi launum og auknu vinnuframboði, hækki greiðslubyrðin. Hætta sé á að það leiði til þess að reynt verði að halda launum niðri því launahækkanir hjá einum hópi geti haft í för með sér hækkanir á lánum annarra starfsstétta. Þá hafi þetta í för með sér að launahækkanir framtíðarinnar séu eyrnamerktar lánastofnunum út lánstímann og hugsanlega þremur árum betur og það muni lita kjarabaráttu framtíðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina