Kæra ákvörðun um Suðvesturlínur

Framkvæmdir í Helguvík
Framkvæmdir í Helguvík mbl.is/Rax

Náttúruverndarsamtök Íslands munu kæra til umhverfisráðherra ákvörðun þá Skipulagsstofnunnar að umhverfisáhrif suðvesturlína skuli ekki metin með öðrum framkvæmdum tengdum fyrirhuguðu álveri í Helguvík. Tafir á málinu skapa Norðuráli mikil vandræði.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir ekki annað koma til greina en að kæra ákvörðunina. „Það verður gert með sömu rökum og áður, þ.e. til að allar upplýsingar um áhrif framkvæmdanna komi fram þurfi að meta þetta sameiginlega.“

Árni segist alveg eins hafa búist við þessari niðurstöðu, en hann hafi ekki trú á öðru en að umhverfisráðherra muni skoða málið rækilega.  

Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar, segir að ákvörðun um kæru verði tekin eftir helgi. kærufrestur til 4. desember nk.

Forsvarsmenn Norðuráls fagna niðurstöðu Skipulagsstofnunar en segja málið hafa valdið vandræðum. „Vonandi klárast þetta mál bara sem fyrst,“ segir Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta. „Það var farið yfir þetta mál árið 2006 og þá ákveðið að fara ekki í sameiginlegt mat. Það er mjög óþægilegt og hefur skapað okkur mikil vandræði að karpa um eitthvað sem er löngu ákveðið ár eftir ár.“

Móðurfélag Norðuráls, Century Aluminum, tekur málefni álvers í Helguvík fyrir á stjórnarfundi í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert