Átti að vera vinaleg kveðja

Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra lauk ávarpi til þjóðarinnar með …
Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra lauk ávarpi til þjóðarinnar með orðunum: „Guð blessi Ísland." Kristinn Ingvarsson

Lokaorðin í ávarpi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra „Guð blessi Ísland", í október í fyrra var hugsuð sem vinaleg kveðja til þjóðarinnar. Í þessum orðum hafi ekki falist nein trúarleg skilaboð. Þetta segir Geir í viðtali við Magasinet, helgarblað Dagbladet í Noregi.

Geir segir í viðtalinu að það hafi aldrei flögrað að sér að svo kynni að fara að hann þyrfti að flytja slíkt ávarp til þjóðarinnar. Hann segist hafa ákveðið sama dag og hann flutti ávarpið að ljúka því með þessum orðum. Þetta séu sömu lokaorð og hann hafi notað í nýársávarpi. Forystumenn annarra þjóða noti iðulega slík lokaorð.

Blaðamaðurinn spyr Geir hvort hann hafi ekki með orðum sínum verið að segja að nú yrði Guð að koma og leysa úr vandanum? Geir hafnar því alfarið þó að hann viti til þess að pólitískir andstæðingar sínir hafi reynt að halda því fram.

Geir segir í viðtalinu að íslensku bankarnir hafi fengið mikið frelsi en misnotað það. Það sé ljóst að forsvarsmenn þeirra hafi brotið af sér bæði lagalega og siðferðilega. Það sé ófyrirgefanlegt og dapurlegt. Það sé einnig hægt að halda því fram að stjórnvöld hafi ekki haft nægilegt eftirlit með bönkunum. Bankakerfið hafi verið tíu sinnum stærra en landsframleiðslan og það hefði aldrei átt að samþykkja svo stórt kerfi. Vandamálið hafi hins vegar verið að EES-samningurinn hafi skuldbundið íslensk stjórnvöld til að innleiða evrópskar reglur á þessu sviði. Reglurnar hafi ekki reynst vel.

Geir er spurður í viðtalinu hvenær hann hefði átt að grípa inn í. „Það hefðum við átt að gera þegar ég varð forsætisráðherra árið 2006, jafnvel fyrr."

Geir er spurður hvers vegna það hafi ekki verið gert. „Við verðum að hafa í huga að á þessum tíma höfðu bankarnir mikinn meðvind. Þeir uxu, greiddu háa skatta og há laun og voru tákn um hið nýja Ísland. Fólk var stolt af bönkunum. Næstum allir stjórnmálflokkarnir voru ánægðir með framgöngu bankanna. Pólitísk afskipti af þeim hefðu ekki verið vinsæl eða raunsæ."

-En er það ekki skylda stjórnvalda að taka óvinsælar ákvarðanir?

„Jú, auðvitað. Það er ljóst og á mínum pólitíska ferli hef ég tekið óvinsælar ákvarðanir, ekki hvað síst þegar ég var fjármálaráðherra," svarar Geir. „Vandinn við þetta allt er að það er auðvelt að vera vitur eftir á. Við hefðum öll getað gert betur og ég tek það sem að mér snýr á mig. Nú bíðum við eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kemur út 1. febrúar."

mbl.is

Bloggað um fréttina