Dræm mæting hjá Degi

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi.
Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Dagur B. Eggertsson fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Faxaflóahafna sf. hefur fengið 160.000 krónur fyrir hvern stjórnarfund sem hann hefur setið fyrir hönd síns flokks á þessu ári. Dagur hefur setið fimm fundi af 11 frá áramótum, að sögn fulltrúa Framsóknarflokksins í stjórn Faxaflóahafna.

Guðmundur Gíslason, varaformaður stjórnar Faxaflóahafna og fulltrúi Framsóknarflokksins, sagði greinilegt að Samfylkingin sé að hefja kosningabaráttu fyrir næstu borgarstjórnarkosningar.  

„Þeir munu eiga erfitt með að gagnrýna þann góða meirihluta sem er í borginni í dag og fara út í að persónugera kosningabaráttuna með því að ráðast á Óskar Bergsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, kjörna fulltrúa flokksins,“ sagði Guðmundur. 

Hann sagði að Samfylkingin hafi byrjað í gær með því að gera lítið úr starfi Sigmundar Davíðs í skipulagsráði borgarinnar. Sigmundur Davíð sé skipulagsfræðingur og hafi starfað heilmikið að skipulagsmálum þótt hann hafi ekki getað mætt mikið á fundi.

„Það kom okkur ekkert á óvart í gær þegar Dagur B. Eggertsson sagði sig úr stjórn Faxaflóahafna. Hann hefur eingöngu  mætt á fimm fundi af ellefu á árinu og sex sinnum kallað inn varamann,“ sagði Guðmundur.

Greiddar eru 80.112 krónur á mánuði fyrir setu í stjórn Faxaflóahafna. Dagur B. Eggertsson, sem nú gegnir sérverkefnum á vegum ríkisstjórnarinnar. Samtals nema greiðslur til Dags vegna stjórnarsetu í Faxaflóahöfnum 801.120 krónum samkvæmt tilkynningunni.

Björk Vilhelmsdóttir varamaður Dag hefur setið sex fundi í hans fjarveru. Viðbótarkostnaður Faxaflóahafna fyrir að kalla inn varamann er 10.140 krónur fyrir hvern fund.

mbl.is