Fréttaskýring: Dómstólarnir eru tifandi tímasprengja

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Ómar Óskarsson

Það vakti að vonum gríðarlega athygli þegar Hæstiréttur ákvað að dæmdum nauðgara skyldi sleppt úr gæsluvarðhaldi vegna þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafði ekki skilað frá sér dómsgerðum málsins til saksóknara, en þrír og hálfur mánuður er liðinn frá því dómurinn var kveðinn upp. Frágangur á gögnum þessa máls er á lokastigi og verða þau væntanlega send til ríkissaksóknara í dag.

„Þetta er auðvitað ömurlegt mál. En þótt allir séu af vilja gerðir geta fleiri mál fylgt í kjölfarið. Þetta er tifandi tímasprengja og fyrsta sprengjan féll í Hæstarétti á miðvikudaginn,“ segir Helgi I. Jónsson, dómstjóri í Héraðsdómir Reykjavíkur og starfandi formaður Dómstólaráðs.

Helgi segir að álagið á dómstólana sé orðið gríðarlegt nú þegar. Þetta sé bara byrjunin og reikna megi með flóðbylgju mála á næstu mánuðum. „Mál sem tengjast bankahruninu munu skipta hundruðum og þar af verða mörg mál af áður óþekktri stærðargráðu. Þá munu dómstólarnir væntanlega fá til umfjöllunar álitamál sem ekki hafa áður komið til þeirra kasta. Það sér hver heilvita maður hvað það þýðir,“ segir Helgi.

Hann segir að starfsmannafjöldi héraðsdómstólanna hafi verið ákveðinn í aðskilnaðarlögunum árið 1989, sem tóku gildi árið 1992. Var þá tekið mið af málafjölda á árunum 1983 til 1988. Ekki hefur fjölgað um einn einasta starfsmann hjá héraðsdómstólunum frá árinu 1992 og fjöldi héraðsdómara er sá sami og þá, 38, þrátt fyrir stóraukinn málafjölda.

Að sögn Helga var hægt að bjarga málunum með því að vinna dómsgerðirnar að miklu leyti í yfirvinnu en það sé ekki lengur heimilt vegna niðurskurðar. „Það er í raun afrek hvernig dómstólunum, þ.e. héraðsdómstólunum og Hæstarétti, hefur tekist að halda uppi skilvirkni miðað við fjölgun mála og hvernig að dómstólunum er búið,“ segir Helgi.

Hann segir að málshraðinn megi ekki koma niður á gæðunum, sjálfu réttarríkinu. Það sé grunvallaratriði. Því munu málin hrannast upp að óbreyttu og málatíminn lengjast verulega.

Lögum samkvæmt hvílir sú skylda á héraðsdómstólunum að endurrita allar yfirheyrslur í sakamálum þegar dómi er áfrýjað til Hæstaréttar. Helgi telur alveg fráleitt að dómstóll sem er búinn að ljúka sínu verki, búinn að kveða upp sinn dóm, þurfi að annast þetta verkefni fyrir ríkissaksóknara. Eðlilegra væri að það væri í verkahring embættis ríkissaksóknara.

Það kemur í hlut dómritara að sjá um þetta verk. Þeir þurfa að endurrita hvert einasta orð af segulböndum, sem mælt er við réttarhaldið. Ekki dugi að endurrita það sem ákæruvaldið og verjendur telji hafa skipt máli fyrir sönnunarmatið og ekki kemur fram í dóminum sjálfum.

Helgi segir að meginhlutverk dómritara sé að vera dómurunum til aðstoðar. Æ minni tími gefist til þess sem sé verulegt áhyggjuefni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert