Hallgrímskirkju hent út af Wikipedia?

Hallgrímskirkja
Hallgrímskirkja mbl.is/Ómar

Verði íslenskum höfundarréttarlögum ekki breytt þá eru allar líkur til þess að ljósmyndum af byggingum Guðjóns Samúelssonar arkitekts og fyrrum húsasmíðameistara ríkisins verði hent út af Wikipedia og eigi þangað ekki afturkvæmt nema að breyttum lögum. Raunar á þetta ekki einungis við um byggingar Guðjóns heldur allar þær byggingar sem hannaðar eru af núlifandi arkitektum og þeim sem látist hafa á síðustu 70 árum.

Þetta segir Salvör Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni og tölvunotkun í námi og kennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en hún gerir málið að umtalsefni í færslu á bloggi sínu.

Í samtali við mbl.is segir Salvör að það yrði mikið áfall fyrir Ísland og ekki síst íslenska ferðaþjónustu ef þessi fyrirætlun Wikipedia gengur eftir, því Guðjón teiknaði margar af þeim byggingum sem teljast til helstu kennileita höfuðborgarinnar.

Meðal merkustu bygginga hans má nefna Hallgrímskirkju, Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafnið, Landakotskirkju, aðalbyggingu Háskóla Íslands, Eimskipafélagshúsið, Hótel Borg, aðalbygging Landsspítalans, Listasafn Íslands og Sundhöllin. Auk þess teiknaði hann Gamla mjólkursamlagið í Borgarnesi, Akureyrarkirkju og Héraðsskólann á Laugarvatni.

Að sögn Salvarar hefur myndum í sameiginlegu myndasafni Wikipedia fjölgað hratt að undanförnu og telja nú um 5,4 milljónir myndir. Hjá Wikipedia hefur verið tekin upp sú starfsregla að birta ekki myndir nema þær séu með opnu og frjálsu höfundarleyfi.

Og þar stendur hnífurinn í kúnni, að sögn Salvarar, því samkvæmt íslenskum höfundaréttarlögum þá helst hann þangað til liðin eru 70 ár frá því að höfundur lést. „Hús teljast hönnunarverk og höfundarréttarlög gilda um þau,“ segir Salvör og bendir á að víða í Bandaríkjunum sem og í Svíþjóð sé hins vegar að finna sérstaka grein í höfundarréttarlögum sem undanskilja myndir af byggingum. Hins vegar sé enga slíka grein að finna í íslensku lögunum.

„Þetta er afleitt fyrir íslenska ferðaþjónustu. Lögin gera það t.d. að verkum að það má ekki myndskreyta umfjöllun um gistimöguleika með mynd af umræddu hóteli nema ýmist með leyfi arkitektsins sem hannaði hótelið eða ef viðkomandi hefur verið látinn í meira en 70 ár,“ segir Salvör og bætir við: „Það verður að breyta þessu. Þetta er öllum til óþurftar.“

Aðspurð segist hún telja að það væri lítið mál að kippa málinu í liðinn og færa íslensku höfundaréttarlögin til samræmis við það sem þekkist í Bandaríkjunum og Svíþjóð, þannig að það sé ekki höfundarréttarvarið að birta myndir af nánasta umhverfi fólks.

Blogg Salvarar Gissurardóttur

mbl.is