Stofnstærð hörpudisks í lágmarki

Árleg stofnmæling Hafrannsóknastofnunarinnar á hörpudiski í Breiðafirði var gerð á Dröfn RE dagana 18.-23. október sl. Meginniðurstaða leiðangursins var sú að heildarvísitala hörpudisks mældist áfram í lágmarki eins og undanfarin ár eða aðeins um 14% af meðaltali áranna 1993-2000. Á þeim árum var stofninn hins vegar talinn í nokkurri jafnstöðu og námu veiðar 8-9 þús. tonnum á ári, að því er segir á vef Hafró.

„Hvað varðar þróun stofnstærðar síðan árið 2000 má segja að hrun stofnsins hafi einkum orðið á árabilinu 2000-2005 en síðan þá hafi stofninn haldist í nokkru jafnvægi, 13-16% af meðalstærð áranna 1993-2000. Þó að stofninn hafi alls staðar farið minnkandi er ástand svæða langskást á miðunum fram af og við Stykkishólm og þar mældist vísitala veiðistofnsins talsvert hærri en 2008.

Hugsanlega er því að þakka að til lengri tíma litið hefur nýliðun á því svæði mælst jafnbetri en víðast annars staðar og vöxtur undanfarin 1-2 ár verið góður. Árgangur hörpudisks 2008 mældist slakur að þessu sinni en þó heldur skárri en árgangarnir þar á undan frá 2005-2007," að því er segir á vef Hafró.

Sjá fréttina í heild á vef Hafró

mbl.is