Joly vonaðist til að hitta Björk

Eva Joly, ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara, hafði engan sérstakan hug á því að ferðast til Íslands þegar Egill Helgason hafði samband við hana og bauð henni til landsins. Hins vegar taldi hún sér bæri skylda til þess vegna náinna tengsla Íslands og Noregs. Ekki spillti fyrir að Egill ýjaði að því að hún myndi kannski hitta Björk Guðmundsdóttur á Íslandi en Joly er mikill aðdáandi söngkonunnar.

Hins vegar var Björk ekki stödd á Íslandi heldur í New York þegar Joly kom hingað fyrst, að því er fram kemur í ítarlegu viðtali við Joly í vefútgáfu Financial Times.

Þegar Joly kom hingað var hún í miðri kosningabaráttu en hún var í framboði fyrir Græningja um sæti á Evrópuþinginu. Sem hún var kosin á fyrir hönd Frakklands í júní sl.

Fram kemur í greininni að einungis hafi liðið nokkrir klukkutímar frá viðtalinu í Silfri Egils að hópur var settur upp á Facebook og hundruð Íslendinga skráð sig í þeirri von um að hún myndi aðstoða við rannsóknina á hruninu á Íslandi. Daginn eftir hitti hún Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra og Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra að máli þar sem þau báðu hana um að veita aðstoð við rannsóknina. Þáði Joly boð þeirra. 

Talar um tengsl á Íslandi

Segir FT að stuðningurinn við Joly meðal Íslendinga lýsi vel því litla trausti sem íslenska þjóðin hafi á leiðtogum landsins til að vinna vinnuna sína. „Íslensk stjórnvöld höfðu enga reynslu í rannsókn af þessu tagi - hvernig áttu þau að hafa hana?" segir Joly við blaðamann FT. Hún segir að skipti máli þau tengsl sem eru milli einstaklinga á Íslandi og bendir á að Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, sé faðir Sigurðar Valtýssonar, forstjóra Exista sem hafi átt stóran hlut í Kaupþingi.

Fram kemur í greininni hve erfitt hafi verið að fá einhvern til að taka að sér embætti sértaks saksóknara en að lokum hafi Ólafur Hauksson tekið að sér starfið.

Starfsaðstaðan minnti á árið 1992 í París

Joly segir að starfsaðstaðan hjá embætti sérstaks saksóknara hafi í fyrstu minnt hana á það þegar hún hóf störf sem rannsóknardómari í París árið 1992. Þá hafi hún þurft að fá lánaða tölvu dóttur sinnar svo hún þyrfti ekki að nota Olivetti ritvél sem dómarar fengu til afnota á þessum tíma. Jafnframt hafi hún þurft að deila ljósritunarvél með 62 öðrum dómurum.

Ólafur Hauksson ber Joly vel söguna í grein FT.  Hann segir hana ákaflega sterkan persónuleika og þau séu sammála um sumt en ekki annað. Það sé hins vegar eðlilegt í mannlegum samskiptum.

Joly viðurkennir að sambandið hennar og Ólafs hafi ekki verið auðvelt í fyrstu en í dag vinna þau vel saman. Auk Joly starfa með embættinu sex franskir sérfræðingar sem hafa unnið með Joly áður. Hún kemur yfirleitt einu sinni í mánuði til Íslands og dvelur hér í tvo daga í senn. Hún tekur tvö þúsund evrur í laun á dag þegar hún er hér en fær ekki greitt fyrir ferðadag né undirbúningsvinnuna erlendis.

Greinarhöfundar segja Joly njóta mikils trausts meðal Íslendinga. Í nýlegri könnun hafi hún notið stuðnings 66% þjóðarinnar á meðan Ólafur Hauksson naut trausts helmings og embætti ríkissaksóknara þriðjungs þjóðarinnar.

Eins njóti hún stuðnings langt út fyrir landsteinana eins og sjáist á þeim viðbrögðum sem grein hennar í alþjóðlegum fjölmiðlum um Icesave vakti út um heim allan.

Draga þarf fólk til ábyrgðar

Joly segir í greininni að það hafi verið áberandi þegar hún kom fyrst hingað til lands hvað fólk talaði um að óheppni hafi valdið hruninu og ýmsir reynt að firra sig ábyrgð.  Hún segir að nauðsynlegt að áður en endurreisn hefst og áður en fyrirgefið verður verði að ákvarða ábyrgðina, hverjir bera ábyrgð, það verður að komast að sannleikanum.

Fyrstu ákærur væntanlegar í árslok 2010

Hún segir að rannsóknin sé enn á byrjunarstigi og að fyrstu ákærurnar verði lagðar fram í lok næsta árs. Hún segir ekki ólíklegt að rannsóknin muni taka fimm ár. „Svo verði að vera ef það á að gera þetta almennilega. Þetta er stórmál. Aðrir evrópskir bankar tengist því," segir Joly. „Það mun sýna að það sem gerðist á Íslandi sé ekki eitthvað íslenskt vandamál."

Væntanlega stærsta rannsókn á hvítflibbaglæpum sögunnar

Segir í grein FT að ef árangur næst af rannsókn embættis sérstaks saksóknara sé líklegt að hún verði stærsta rannsókn sögunnar á hvítflibbaglæpum. Ef hún mistekst þá vakni spurningin um hvort einhver geti stýrt rannsókn af þessu tagi. Joly veit hvað rannsóknin er þýðingarmikil og segir að þetta sé miklu stærra mál heldur en rannsóknin á Elf olíufélaginu á sínum tíma. Hins vegar sé ómögulegt að segja til um það á þessari stundu hve miklu stærra það er. „Ekki strax."

Joly segist vonast til þess að ekki verði þörf á henni allan tíma. Ferðalögin reyni á.  Hún sé hins vegar á Íslandi til þess að hjálpa. Íslendingar hafi fjárfest í henni og hafi miklar væntingar til hennar. „En þetta er þeirra landi. Einungis Íslendingar geta stýrt þessari rannsókn," segir Joly.

Grein FT í heild

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir. mbl.is/Ómar
Embætti sérstaks saksóknara
Embætti sérstaks saksóknara mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert