Bylgja kortasvika

Borgun hefur gripið til varúðarráðstafana vegna kortasvika.
Borgun hefur gripið til varúðarráðstafana vegna kortasvika. mbl.is/ÞÖK

Talsvert hefur borið á því að fé hafi verið svikið út af  íslenskum kreditkortum í Bandaríkjunum undanfarna daga. Starfsfólk Borgunar hefur hringt í fjölda fólks sem er með Mastercard til að lækka erlenda heimild á kortunum eða útbúa ný kort til að draga úr áhættunni.

Bergþóra Ketilsdóttir, forstöðumaður viðskiptavers Borgunar hf. sem þjónustar Mastercard og American Express hér á landi staðfesti að borið hafi á sviksamlegum færslum frá Bandaríkjunum.

Hún segir að slíkt komi alltaf upp annað slagið og sé orðið alheimsvandamál en upplýsir ekki hvernig svikin eru framkvæmd í þeirri bylgju sem nú gengur yfir.

Borgun er með sérstaka svikavakt og hefur það komið í veg fyrir heilmikið tjón, að sögn Bergþóru.

Mastercard korthafi sem rætt var við fékk hringingu frá Borgun á fimmtudag þar sem honum var sagt að keyptar hafi verið vörur út á kortið hans í Bandaríkjunum um nóttina fyrir sem samsvarar 200 þúsund krónur og spurt hvort hann kannaðist við það.

Korthafinn var í fastasvefni heima á Íslandi og hefur ekki notað kortið sitt í Bandaríkjunum í rúmt ár. Kortinu var lokað strax, úttektin bakfærð og viðkomandi fékk nýtt kort. Hann fékk ekki frekari skýringar á málinu en er ánægður með viðbrögð kortafyrirtækisins.

Bergþóra segir að korthafinn beri ekki tjónið í slíkum tilvikum en það fari eftir aðstæðum hvort það lendi á kortafyrirtækinu eða seljanda vörunnar.

Hún biður fólk að hafa varann á. Passa vel upp á kortin sín og fylgjast með færslum á kortareikninginn. Mikilvægt sé að gefa ekki upp kortanúmer í síma.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert