Fjárlaganefnd samþykkir ríkisábyrgð á Icesave-reikningum

Frá fundi fjárlaganefndar. Mynd úr safni.
Frá fundi fjárlaganefndar. Mynd úr safni. mbl.is/Heiddi

Fjárlaganefnd Alþingis hefur samþykkt frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinga og afgreitt málið út úr nefndinni. Frumvarpið verður því tekið til annarrar umræðu á Alþingi á næstu dögum. Fjárlaganefnd kom saman til fundar til 19 í kvöld og lauk fundinum um kl. 20

„Þetta var afgreitt með [6] atkvæðum meirihlutans gegn [5] atkvæðum minnihlutans,“segir Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að stjórnarflokkarnir séu samstíga í málinu. „Meirihlutinn gerir ekki breytingar við frumvarpið eins og það er lagt fram og telur það vel ásættanlegt í því formi sem það er. Og hvetur til þess að það verði afgreitt sem slíkt,“ segir hann.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins sem á sæti í nefndinni, segir að málið hafi verið samþykkt í miklum ágreiningi. Hann segir að minnihlutinn hafi verið mjög ósáttur við að þetta skyldi vera gert núna. 

„Við í minnihlutanum fórum fram á það að álit efnahags- og skattanefndar yrðu rætt í fjárlaganefnd,“ segir Höskuldur. Hann segist jafnframt hafa óskað eftir því að málið í heild yrði rætt í fjárlaganefnd, því nefndin hafi aldrei sest niður til að fara yfir efnahagsfyrirvarana. 

Björn Valur Gíslason, Guðbjartur Hannesson, sem er formaður nefndarinnar, Oddný G. Harðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Þuríður Backman samþykktu ríkisábyrgðina. Ólafur Þór Gunnarsson sat fundinn í fjarveru Ásmundar Einars Daðasonar, og greiddi atkvæði með frumvarpinu.

Ásbjörn Óttarsson, Höskuldur Þórhallsson, Kristján Þór Júlíusson og Þór Saari greiddu atkvæði gegn ábyrgðinni. Einar Kristinn Guðmundsson sat fundinn í fjarveru Ólafar Nordal, og greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.

mbl.is