Ómetanleg menningarverðmæti fundust á sorphaugum

Nýja bíó
Nýja bíó

Eiríkur Símon Eiríksson færði Borgarskjalasafni Reykjavíkur í dag að gjöf ómetanlegar heimildir um upphaf og rekstur Nýja Bíós sem stofnað var í Reykjavík árið 1912. Um er að ræða meðal annars leyfi til sýningarreksturs frá 1912, undirrituð lög hlutafélagsins frá 1912, handskrifuð fundargerðarbók frá 1914 til 1944 og efnahagsbók frá 1916 til 1928.
 
Eiríkur Símon er tæplega áttræður trésmiður, Skagfirðingur og fyrrverandi borgarstarfsmaður til 30 ára, að því er fram kemur í tilkynningu.

Áður starfaði hann hjá ríkinu við viðhald á eldri húsum stjórnarráðsins og Bessastöðum. Fyrir 10 árum var hann á leið í sumarhús sitt og kom við á gömlu öskuhaugum borgarinnar að Gufunesi.

Á haugunum sá hann liggjandi tvo stóra áhugaverða filmukassa með leðurhöldum, eins og bíóin notuðu til að senda filmur til sýningastaða á landsbyggðinni. Hann ákvað að hirða þá til að nota til geymslu í sumarbústað sínum, þar sem kassarnir væru góð vörn gagnvart músargangi. Nokkru seinna opnaði hann annan kassann og var hann tómur. Hinn kassinn var fullur af skjölum.

Að sögn Eiríks datt honum í hug að skjölin væri örugglega bara til í einu eintaki og að óþarfi væri að henda þessu. Hann ákvað því að halda þessu til haga. Nýlega rakst Eiríkur á þessi gömlu skjöl og kom þá í hug að Borgarskjalasafni þætti fengur að þessu. Hann kom þessu því til varðveislu til safnsins í dag, samkvæmt upplýsingum frá Borgarskjalasafni.

Hluti skjalanna
Hluti skjalanna
Eiríkur Símon Eiríksson færði Svanhildi Bogadóttur gögnin
Eiríkur Símon Eiríksson færði Svanhildi Bogadóttur gögnin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert