Fjármagnsskattur hækkar í 18%

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kynna skattaáform stjórnarinnar.
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kynna skattaáform stjórnarinnar. mbl.is/Golli

Einstaklingar sem eru með undir 270 þúsund krónur í tekjur og hjón með undir 540 þúsund í samanlagðar tekjur munu á næsta ári greiða lægri tekjuskatt en þau gera nú samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar. Fjármagnsskattur hækkar úr 15% í 18% með 100 þúsund króna frítekjumarki vaxtatekna á ári.

Tekið verður upp þriggja þrepa skattkerfi. Þeir sem eru með tekjur yfir 650 þúsund krónur greiða 33% tekjuskatt. Þeir sem eru með tekjur á bilinu 200-650 þúsund greiða 27% á tekjur og þeir sem eru með undir 200 þúsund krónur greiða 24,1% tekjuskatt. Ofan á þetta bætist síðan á útsvar sem sveitarfélögin leggja á. Meðalútsvar er nú 13,1%.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að tekjuskattur á einstaklinga skili ríkissjóði 143,5 milljörðum króna í tekjur á næsta ári samanborið við tekjur í ár að fjárhæð 106,7 milljarða króna. Á blaðamannafundi með  Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, kom fram að við nánari útreikninga og athuganir hafi komið í ljós að ekki þótti raunhæft að stefna að svo mikilli tekjuaukningu. 

Samanlagðar tekjur af almennum tekjuskatti einstaklinga og fjármagnstekjuskatti verða væntanlega um 117 milljarðar króna á næsta ári. 

Kom fram á blaðamannafundinum að um ríflega fjórðungs minni hækkun skatta sé að ræða heldur en lagt var til í fjárlagafrumvarpinu. Í  þeim tilfellum þar sem ein fyrirvinna fjölskyldu hefur yfir 650 þúsund krónur í mánaðartekjur er möguleiki á að sækja um að flytja hluta tekna í lægra skattþrep.

Skattleysismörk hækka úr um 113 þúsund krónum í tæpar 119 þúsund krónur miðað við þær álagningarprósentur sem nú eru til skoðunar.

Sem dæmi var nefnt á blaðamannafundinum að einstaklingur sem er með 180 þúsund krónur í brúttólaun á mánuði greiði nú 12,8% af tekjum sínum í skatta. Eftir breytinguna greiði viðkomandi 11,6% í skatt.

Hjón sem eru með 350 þúsund krónur hvort í mánaðalaun, alls 700 þúsund krónur í mánaðalaun greiði nú 26,2% af tekjum sínum í skatt en eftir breytingar greiði þau 26,9%, 0,7% meira en í núverandi kerfi.

Hjón sem eru með 700 þúsund krónur á mánuði hvort um sig, alls 1400 þúsund krónur á mánuði greiða nú 32,5% af tekjum sínum í skatta (tekjuskatt og útsvar). Eftir breytingarnar munu þau greiða 34,8% af tekjum sínum í skatta, 2,3% meira en nú.

mbl.is