Sparisjóðirnir með jákvæðustu ímyndina

Í nýrri vörumerkjakönnun Capacent kemur í ljós að sparisjóðirnir eru með jákvæðustu ímynd fjármálafyrirtækja á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þeim. Könnunin var gerð dagana 21. október til 2. nóvember. Segir þar ennfremur að aðrar rannsóknir bendi til þess að fáir treysti ríkisreknu bönkunum þrátt fyrir hundruða milljarða framlög ríkisins til þeirra, og auglýsingaherferðir sem kostað hafi gríðarlega fjármuni á liðnum mánuðum.

„Eins og fram hefur komið af fréttum hafa sparisjóðirnir enn ekki fengið framlag frá ríkissjóði þrátt fyrir að ár sé liðið frá setningu neyðarlaga þar sem heimilað var að styðja við þá með tæplega 19 milljarða króna framlagi eða sem nemur 20% af eiginfé þeirra eins og það var í árslok 2007. Þetta framlag er hugsað sem tímabundin aðgerð og gert ráð fyrir að ríkissjóður fái það endurgreitt með ásættanlegri arðsemi þegar sjóðunum vex fiskur um hrygg á ný," segir í tilkynningunni, sem Gísli Jafetsson skrifar undir.

Segir þar einnig að samningar við erlenda og innlenda lánardrottna sjóðanna hafi legið fyrir um langt skeið og kröfuhafar séu orðnir langeygir eftir aðgerðum ríkisvaldsins enda telji þeir mikilvægt að efla og styrkja sparisjóðakerfið. Það framlag sem sparisjóðirnir óski eftir sé óverulegur hluti af því sem ríkið hafi lagt fram til stóru bankanna.

Samband íslenskra sparisjóða, heldur nú aðalfund sinn í Reykjanesbæ. Þar er jafnframt haldinn sérstakur stefnumótunarfundur og m.a. rætt um stöðu þeirra sparisjóða sem nú eru starfandi og hvernig þeir ætla að efla samvinnu sína og auka hagræði í rekstri á komandi árum.

Í gögnum kemur fram að sparisjóðirnir í landinu þjóna um 20% landsmanna og hjá þeim starfa 600 starfsmenn. Árlega fá ríki og sveitarfélög á fjórða milljarð króna í beina skatta af þessum fyrirtækjum og því ljóst að hið opinbera yrði af miklum tekjum til framtíðar litið ef sparisjóðanna nyti ekki lengur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert