Stopul háhraðanettenging

Háhraðanettenging í Árneshreppi hefur reynst mjög óstöðug og detta út …
Háhraðanettenging í Árneshreppi hefur reynst mjög óstöðug og detta út í tíma og ótíma. Jón G. Guðjónsson

Íbúar í Árneshreppi eru orðnir langþreyttir á stopulu netsambandi eftir að Síminn setti upp háhraða nettengingu í hreppnum í lok október. Tengingin hefur reynst óstöðug, stundum er sambandslaust en gott þar á milli. Þetta er mjög bagalegt t.d. fyrir bankaútibúið í hreppnum, að sögn oddvitans.

Oddný S. Þórðardóttir, oddviti, sagði að tengingin detti út í tíma og ótíma. Ekki sé nema tæpur mánuður síðan háhraðanettengingin var sett upp. „Auðvitað er þetta ekki í nógu góðu lagi,“ sagði Oddný. „Við vitum ekki hver framvindan verður í því.“

Oddný ætlar að tala við Símann í dag til að vita hvort ekki er hægt að fá bót á netsambandinu. Í ljósi þess hve mikil samskipti eru með tölvum sé þetta mjög bagalegt. Einkum er stopult samband erfitt fyrir bankaútibúið en líka alla þá sem eru að vinna verkefni í gegnum tölvur. 

Oddný sagði að enn vantaði háhraðanetstengingu í Djúpavík og erfiðlega gekk að koma á háhraðaneti til fleiri bæja.  Sem kunnugt er hefur mjög verið dregið úr þjónustu við Árneshrepp varðandi snjómokstur og nú bætast við stopul netsamskipti.

Að sögn íbúa í Árneshreppi hafa íbúar í hreppnum kvartað til Fjarskiptasjóðs og eins til Símans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert