Mengunarskattur á bíla

Skattar á bílum verða byggðir á losun koltvísýrings, samkvæmt áformum …
Skattar á bílum verða byggðir á losun koltvísýrings, samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar. mbl.is/RAX

Boðað er í nýju frumvarpi fjármálaráðherra um kolefnisgjald, sem lagt var fram á Alþingi í gærkvöldi, að lögum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti og bifreiðagjald verði brátt breytt og ökutæki skattlögð miðað við losun á koltvísýringi. 

Í frumvarpinu er kveðið á um sérstakt kolefnisgjald á bensín og olíu og segir þar, að sú skattlagning sé fyrsti liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum.

„Stefnt er að því að næsta skref stjórnvalda verði í formi frumvarps til laga um breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti og bifreiðagjald, þar sem lagt verður til að skattlagning ökutækja verði byggð á losun á koltvísýringi. Jafnframt eru til skoðunar frekari breytingar á skattlagningu umferðar almennt í þá veru að meira tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða," segir síðan í frumvarpi fjármálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert