Þinginu haldið í gíslingu málþófs

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Heiðar

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag, að þinginu væri haldið í gíslingu málþófs stjórnarandstöðunnar dögum saman í Icesave-málinu. Harðar deilur hafa verið á þinginu í morgun um fundarstjórn forseta.

„Málþófið sem minnihluti þingheims beitir hér er bara hrein og klár kúgun og skrumskæling á þingræðinu og lýðræðinu," sagði Ólína. „Það er meirihluti þingheims og vilji hans sem hlýtur að stjórna störfum þingsins."

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mótmælti þeirri túlkun stjórnarliða að stjórnarandstaðan stundaði málþóf.  Hann sagðist telja sig hafa fjallað málefnalega um Icesave-frumvarpið og komið með nýjar upplýsingar um það eins og fleiri hefðu gert.  

Allt stefnir í að önnur umræða um Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar verði löng. Þegar umræðunni var frestað í nótt voru 17 þingmenn á mælendaskrá. Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna lögðu í gærkvöldi til að umræðu um Icesave-málið yrði frestað og þess í stað færi fram 1. umræða um skattamál ríkisstjórnarinnar svo hægt væri að koma þeim til nefndar. Tillaga þessa efnis var felld.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði að málþóf væri tvíeggjað sverð. Menn mættu tala eins og þeir vildu en það væri stundum hættulegt, og nú væri Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefðu leitt Framsóknarflokkinn inn í málþóf í Icesave-málinu, væri farinn að óttast um sína stöðu. Sjálfstæðisflokkurinn væri farinn að skynja, að hann hefði engan stuðning úti í samfélaginu til að halda brýnustu fjárlagamálum ríkisstjórnarinnar í gíslingu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina